Refsing milduð umtalsvert

Gunnar Jóhann hefur setið í fangelsi síðan hann var handtekinn …
Gunnar Jóhann hefur setið í fangelsi síðan hann var handtekinn að morgni 27. apríl 2019. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Áfrýj­un­ar­dóm­stóll í Nor­egi hef­ur mildað dóm­inn yfir Gunn­ari Jó­hanni Gunn­ars­syni, sem í októ­ber hlaut 13 ára fang­els­is­dóm fyr­ir að ráða hálf­bróður sín­um, Gísla Þór Þór­ar­ins­syni, bana með hagla­skoti að morgni 27. apríl 2019, í fimm ár. 

Greint er frá þessu á vef norska rík­is­út­varps­ins í gær­kvöldi en Vís­ir greindi fyrst­ur ís­lenskra miðla frá niður­stöðunni.

Gunn­ar hef­ur alltaf haldið fram að um slysa­skot hafi veri að ræða og féllust fjór­ir af sjö dómur­um við áfrýj­un­ar­dóm­stól­inn á þá skýr­ingu, það er mann­dráp af gá­leysi. 

Málið fór fram fyr­ir lög­manns­rétti Háloga­lands í Tromsø og sótti Tor­stein Lindquister héraðssak­sókn­ari málið fyr­ir hönd héraðssak­sókn­ara­embætt­is­ins í Troms og Finn­mark líkt og í héraðsdómi. Verj­andi Gunn­ars var Bjørn Gulstad í héraði sem og í áfrýj­un­ar­mál­inu ásamt öðrum verj­anda og eig­anda frá sömu lög­manns­stofu, Brynj­ari Mel­ing, sem hvað þekkt­ast­ur er fyr­ir að ann­ast málsvörn Najmudd­in Faraj Ahmad, öðru nafni mulla Krek­ar, eins af leiðtog­um kúr­dísku hryðju­verka­sam­tak­anna Ans­ar al-Islam, í máli sem gekk meira og minna í 17 ár í Nor­egi, þar til Krek­ar var að lok­um fram­seld­ur til Ítal­íu í fyrra.

Verj­end­ur Gunn­ars sögðu fyr­ir rétti að Gunn­ar hefði ekki ætlað að ráða bróður sín­um bana held­ur hafi skot hlaupið af hagla­byssu, sem Gunn­ar hafði meðferðis, í læri Gísla Þórs þegar þeir tók­ust á um vopnið. Aft­ur á móti hélt sak­sókn­ari því fram að um vilja­verk hefði verið að ræða en Gunn­ar hafði ít­rekað hótað því að drepa bróður sinn. Hann fór fram á að refs­ing héraðsdóms yrði staðfest. 

Afar mjótt var á mun­um fyr­ir dómi í gær en þrír dóm­ar­ar töldu rétt að staðfesta niður­stöðu héraðsdóms og trúðu ekki þeim skýr­ing­um að um slysa­skot hefði verið að ræða. Fjór­ir dóm­ar­ar töldu aft­ur á móti að Gunn­ar hefði ekki ætlað að skjóta bróður sinn. 

Gunn­ar beið eft­ir Gísla á heim­ili þess síðar­nefnda vopnaður hagla­byssu. Þegar Gísli kom heim skipaði Gunn­ar hon­um að fara inn á baðher­bergi en Gísli hlýddi ekki og gekk í átt að Gunn­ari. Er það niðurstaða meiri­hlut­ans að hann hafi ýtt við vopn­inu og skotið óvart hlaupið af úr byss­unni. Tækni­deild norsku ör­ygg­is­lög­regl­unn­ar, Kripos, taldi að galli hefði verið í ör­yggi hagla­byss­unn­ar og hann hefði jafn­vel orðið til þess að skot hljóp úr byss­unni. Eins hefði hreyf­ing­in mögu­lega orðið til þess að Gunn­ar þrýsti óvart á gikk­inn. Ekki sé hægt að full­yrða að um vilja­verk hefði verið að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert