Áfrýjunardómstóll í Noregi hefur mildað dóminn yfir Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, sem í október hlaut 13 ára fangelsisdóm fyrir að ráða hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, bana með haglaskoti að morgni 27. apríl 2019, í fimm ár.
Greint er frá þessu á vef norska ríkisútvarpsins í gærkvöldi en Vísir greindi fyrstur íslenskra miðla frá niðurstöðunni.
Gunnar hefur alltaf haldið fram að um slysaskot hafi veri að ræða og féllust fjórir af sjö dómurum við áfrýjunardómstólinn á þá skýringu, það er manndráp af gáleysi.
Málið fór fram fyrir lögmannsrétti Hálogalands í Tromsø og sótti Torstein Lindquister héraðssaksóknari málið fyrir hönd héraðssaksóknaraembættisins í Troms og Finnmark líkt og í héraðsdómi. Verjandi Gunnars var Bjørn Gulstad í héraði sem og í áfrýjunarmálinu ásamt öðrum verjanda og eiganda frá sömu lögmannsstofu, Brynjari Meling, sem hvað þekktastur er fyrir að annast málsvörn Najmuddin Faraj Ahmad, öðru nafni mulla Krekar, eins af leiðtogum kúrdísku hryðjuverkasamtakanna Ansar al-Islam, í máli sem gekk meira og minna í 17 ár í Noregi, þar til Krekar var að lokum framseldur til Ítalíu í fyrra.
Verjendur Gunnars sögðu fyrir rétti að Gunnar hefði ekki ætlað að ráða bróður sínum bana heldur hafi skot hlaupið af haglabyssu, sem Gunnar hafði meðferðis, í læri Gísla Þórs þegar þeir tókust á um vopnið. Aftur á móti hélt saksóknari því fram að um viljaverk hefði verið að ræða en Gunnar hafði ítrekað hótað því að drepa bróður sinn. Hann fór fram á að refsing héraðsdóms yrði staðfest.
Afar mjótt var á munum fyrir dómi í gær en þrír dómarar töldu rétt að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms og trúðu ekki þeim skýringum að um slysaskot hefði verið að ræða. Fjórir dómarar töldu aftur á móti að Gunnar hefði ekki ætlað að skjóta bróður sinn.
Gunnar beið eftir Gísla á heimili þess síðarnefnda vopnaður haglabyssu. Þegar Gísli kom heim skipaði Gunnar honum að fara inn á baðherbergi en Gísli hlýddi ekki og gekk í átt að Gunnari. Er það niðurstaða meirihlutans að hann hafi ýtt við vopninu og skotið óvart hlaupið af úr byssunni. Tæknideild norsku öryggislögreglunnar, Kripos, taldi að galli hefði verið í öryggi haglabyssunnar og hann hefði jafnvel orðið til þess að skot hljóp úr byssunni. Eins hefði hreyfingin mögulega orðið til þess að Gunnar þrýsti óvart á gikkinn. Ekki sé hægt að fullyrða að um viljaverk hefði verið að ræða.