Á fundi formanns skóla- og frístundaráðs, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, skrifstofustjóra grunnskólahluta og skólastjórnenda Fossvogsskóla fyrr í morgun var ákveðið að boða til samráðsfundar allra aðila með skólaráði skólans. Fundurinn fer fram á mánudaginn kl. 16.15.
Þetta kemur fram í bréfi Ingibjargar Ýrar Pálmadóttur skólastjóra til foreldra nemenda í Fossvogsskóla.
Þar verður fjallað um áætlanir um næstu skref í kjölfar niðurstaðna síðustu sýnatöku, þeirra framkvæmda sem ráðist var í á grundvelli þeirra og hvernig leyst verður úr stöðu þeirra barna og starfsfólks sem hafa fundið fyrir einkennum og vanlíðan í skólahúsnæðinu, segir í bréfi skólastjóra.
„Á fundinum verður farið vel yfir þá valkosti sem eru í stöðunni varðandi húsnæðið og skólahald komandi vikna og mánaða. Það er vilji allra aðila að tryggja að húsnæði og aðstaða til skóla- og frístundastarfs veiti fullnægjandi umgjörð um metnaðarfullt skólastarf og stuðli að heilbrigði og vellíðan barna og starfsmanna,“ segir enn fremur í bréfi skólastjóra.