Átta skjálftar hafa mælst af stærð 3 og þar yfir á svæðinu við Fagradalsfjall frá því klukkan níu í morgun.
Mesti skjálftinn mældist 4,1 stig og reið yfir um klukkan 11.50 fyrir hádegi. Honum fylgdi fjöldi annarra skjálfta.
Þannig urðu fimm skjálftar á næstu rúmu tuttugu mínútum, þar af tveir af stærðinni 3,6.
Skjálftarnir hafa fundist vel í næstu byggðum, þar á meðal Grindavík. Rafmagnslaust er nú í bænum eftir að út sló í orkuverinu í Svartsengi fyrir norðan bæinn.
Ljóst er að skjálftavirknin hefur undanfarna sólarhringa greinilega færst í suðvestur, fjær fjallinu Keili og um leið nær Fagradalsfjalli. Gos þar þykir nú líklegast, fari svo á annað borð að kvika komi upp á yfirborðið.