Varðskipið Þór er nú á leið til Grindavíkur. Fyrr í kvöld óskaði almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eftir því að skipið yrði til taks við Grindavík ef framleiða þarf varaafl fyrir hluta bæjarins.
Þetta kemur fram á facebook-síðu Landhelgisgæslunnar.
Ef þörf reynist á aðkomu skipsins verður því siglt í höfn við hentug sjávarföll í fyrramálið. Þór verður til taks eins lengi og þurfa þykir.
Fram kom á facebook-síðu HS-Veitna upp úr sjö í kvöld að rafmagn væri komið á um hálfan bæinn en rafmagn fór af öllum bænum um klukkan tvö í dag.