Frisbígolfvöllurinn á Víðistaðatúni í Hafnarfirði er nú orðinn löggildur heilsárskeppnisvöllur. Upphaflega voru settar upp sex brautir á vellinum árið 2014 en þremur brautum var svo bætt við í fyrra. Síðan hefur verið unnið að því að setja upp heilsársteiga á allar brautir í samstarfi við Íslenska frisbígolfsambandið (ÍFS).
Nú er völlurinn tilbúinn og hefur fengið löggildingu að því er fram kemur í tilkynningu frá Hafnafjarðarbæ. Frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf nema í stað golfkylfa og golfbolta eru notaðir frisbídiskar og körfur.
„Nýlegar niðurstöður Gallup-könnunar sýna að 50% íbúa á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 18-24 ára spiluðu frisbígolf á árinu 2020 og 45% íbúa á aldrinum 25-34 ára. Niðurstöður sýna jafnframt að 16% landsmanna 18 ára og eldri spiluðu frisbígolf á síðasta ári eða um 45.000 manns,“ segir í tilkynningunni.
Upplýsingaskilti um leikreglur og skipulag vallarins á Víðistaðatúni er að finna fyrir neðan Víðistaðakirkju.