Vísindaráð fundar í hádeginu

Björgunarsveitarmenn á ferðinni á Reykjanesskaga fyrr í vikunni.
Björgunarsveitarmenn á ferðinni á Reykjanesskaga fyrr í vikunni. mbl.is/Eggert

Vísindaráð almannavarna fundar klukkan 12 á hádegi um stöðu mála á Reykjanesskaga. Enginn órói hefur mælst á svæðinu frá því á miðvikudaginn, að sögn vísindamanna sem sátu fund ráðsins í gær.

Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúrúvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Vísindaráð almannavarna er óformlegur samráðsvettvangur almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og vísindasamfélagsins.

Það að enginn órói hafi mælst þýðir að hægt hefur á kvikuhreyfingum eins og staðan er núna. Áfram er samt mikil skjálftavirkni og atburðurinn er enn þá í gangi.

Mesta virknin er enn við Fagradalsfjall og hefur færst í norðaustur. Tæplega 1.000 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti, þar af hafa fjórir verið um þrír að stærð. Síðasti skjálftinn yfir 4 að stærð varð í gærkvöldi. Hann mældist 4,2 og átti upptök sín um tvo kílómetra norður af Grindavík. Fannst hann mjög vel í bænum, að sögn Einars.

Hugsanlegt er að starfsmenn Veðurstofu Íslands fari á Reykjanesskaga í dag til að kanna aðstæður. „Það er ómögulegt að spá til um framhaldið á þessum tímapunkti en við metum stöðuna eftir því sem ný gögn berast,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert