„Við getum nálgast þetta markmið smám saman með því að vera fljót að skilja þá ferla sem eru í gangi í jarðskorpunni. Eftir því sem við skiljum þá betur aukast líkur á því að við getum sagt á gagnlegan hátt fyrir um komandi jarðskjálfta. Það þýðir samt ekki að við getum spáð fyrir um allt,“ segir Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur. Hann hafði forystu í evrópskum rannsóknaverkefnum sem miðuðu að því að finna aðferðir til að spá fyrir um jarðskjálfta á Íslandi.
Verkefnin stóðu hátt í tvo áratugi en lauk á árinu 2005. Síðan hafa ekki verið stundaðar hér skipulegar rannsóknir sem miða beinlínis að jarðskjálftaspám.
Ragnar segir margt gagnlegt hafa komið út úr þessum verkefnum. Nefnir hann jarðskjálftamælakerfið sem enn er notað og GPS-landmælingakerfi. „Haldið hefur verið áfram með ýmiss konar rannsóknir á grundvelli þessara mælinga. Þær hafa haft áhrif á ýmislegt í skilningi okkar á jarðskjálftum og eldgosum. Mér hefur hins vegar fundist að það vanti að fullnýta allar mælingar í að segja fyrir um slíka atburði,“ segir hann.
Segir Ragnar að alltaf hafi verið sagt að auðveldara væri að spá fyrir um eldgos en jarðskjálfta. Það sé að breytast og nú séu að hefjast rannsóknir með þessu markmiði erlendis.
Rifja má upp að Ragnar og samstarfsmenn hans spáðu nokkuð fyrir um Suðurlandsskjálftana í júní 2000. Töldu þeir að næsti stóri skjálfti yrði í Holtunum og hann kynni að ýta af stað öðrum stórum skjálfta sem líklegur væri suður af Hestfjalli. Þetta gekk nokkuð eftir 17. og 21. júní. Þeir gerðu grein fyrir rökum sínum fyrir þessu í greinum sjö til tólf árum fyrr. Eftir fyrri skjálftann gátu vísindamennirnir varað almannavarnir við þeim seinni þótt þeir gætu ekki gefið upp nákvæma tímasetningu og var það hjálplegt í viðbúnaði.
Ragnar hætti störfum á Veðurstofunni og við Háskólann á Akureyri fyrir tólf árum en hefur áfram unnið að rannsóknum og skrifum. Hann er núna að skrifa alþýðlega fræðibók um jarðskjálftaspár.
Telur hann að jarðvísindin ættu að nýta mælingar og þekkingu enn betur til að spá fyrir um jarðskjálfta og eldgos. Ekki aðeins hvar og hvenær líklegt sé að atburðir verði heldur eigi slíkar spár að gera grein fyrir eðli jarðskjálfta og eldgoss og hættunni sem atburðirnir gætu valdið.
Ragnar fylgist með hræringunum á Reykjanesskaganum, eins og aðrir. Hann segir erfitt að spá fyrir um til hvers það leiði að kvika fór upp í sprungu sem myndaðist.
Segir Ragnar að jarðskorpan haldi áfram að hreyfast og á meðan harði kjarninn sem er á milli Kleifarvatns og Þrengsla hreyfist ekki til samræmis byggist upp spenna á svæðinu. Nefnir hann tvo möguleika. Annars vegar að jarðskjálftarnir fari þá leið sem þeir komu, út á Reykjanestá og Reykjaneshrygg eða spennupúls frá kvikuinnskotinu fari fram hjá harða kjarnanum og hreyfi við jarðskorpunni nálægt Þrengslunum. Telur hann meiri líkur á eldgosi en hörðum skjálfta.