Ástbjörg S. Gunnarsdóttir íþróttakennari lést á Vífilsstöðum 3. mars síðastliðinn, á 92. aldursári.
Ástbjörg fæddist í Reykjavík 22. júní 1929, dóttir Margrétar Ketilsdóttur húsfreyju og Gunnars Sigurðssonar múrara. Bróðir hennar var Sigurður K. Gunnarsson forstjóri, f. 1931, d. 2016.
Ástbjörg gekk í Kvennaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi árið 1946. Hún starfaði um hríð hjá Johan Rönning, en fór svo í Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan sem íþróttakennari vorið 1949.
Hún hóf störf við Íþróttaskóla Jóns Þorsteinssonar á Lindargötu 7 í Reykjavík haustið 1949 og kenndi þar sjúkraleikfimi til ársins 1957.
Ástbjörg var frumkvöðull á sviði kvennaleikfimi á Íslandi og stofnaði „Hressingarleikfimi Ástbjargar“ árið 1959. Þar kenndi hún fullorðnum konum í alls 56 ár, einnig karlaflokkum í 16 ár. Hún hætti kennslu vorið 2015 er hún var orðin tæplega 86 ára.
Ástbjörg var í stjórn Fimleikasambands Íslands 1970-1981, þar af formaður síðustu fjögur árin 1977-1981. Hún var fyrsta konan sem varð formaður sérsambands innan ÍSÍ.
Ástbjörg sat í fjölmörgum nefndum og var prófdómari allra skóla í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði í 20 ár. Auk þess var hún prófdómari Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni í 32 ár.
Ástbjörg var sæmd heiðursmerki Norræna fimleikasambandsins 1973, gullmerki ÍSÍ 1979 og var kosin heiðursfélagi ÍSÍ og Ólympíusambandsins árið 2002. Jafnframt var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2009, og var gerð að heiðursfélaga Fimleikasambands Íslands árið 2014.
Árið 1954 giftist Ástbjörg eiginmanni sínum til 59 ára, Jóhanni T. Ingjaldssyni, aðalbókara Seðlabanka Íslands. Hann lést árið 2013. Börn þeirra eru Margrét (f. 1954), gift Hálfdáni Helgasyni, og Ingi Gunnar (f. 1958), maki Kristín Hákonardóttir. Barnabörnin eru átta og barnabarnabörnin eru sex. Útför Ástbjargar verður auglýst síðar.