Ekki Póstsins að ákveða

Kostnaður við hverja vitjun að póstlúgum fer vaxandi, að sögn …
Kostnaður við hverja vitjun að póstlúgum fer vaxandi, að sögn forstjóra Póstsins. mbl.is/Eyþór

Ísland­s­póst­ur hef­ur ekki íhugað að hætta út­b­urði bréfa í all­ar lúg­ur held­ur eru slík­ar breyt­ing­ar aðeins á hyg­mynda­stigi. For­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins ræddi slík­ar hug­mynd­ir á aðal­fundi Ísland­s­pósts í gær og jafn­framt í viðtali við Morg­un­blaðið í dag.

Brynj­ar Smári Rún­ars­son, for­stöðumaður þjón­ustupp­lif­un­ar hjá Ísland­s­pósti, sendi Morg­un­blaðinu tvo tölvu­pósta vegna máls­ins um há­deg­is­bilið.

Fram kom í máli Þór­hild­ar Ólaf­ar Helga­dótt­ur, for­stjóra Ísland­s­pósts, á aðal­fund­in­um í gær að fyr­ir­tækið væri að breyt­ast úr því að vera fyr­ir­tæki sem ber út póst yfir í að vera fyr­ir­tæki sem dreif­ir pökk­um. Benti hún á að magn bréfa hefði dreg­ist sam­an um 37% í janú­ar.

Það er langt um­fram þá áætl­un sem birt­ist í viðtali við for­stjóra Póst- og fjar­skipta­stofn­un­ar í ViðskiptaMogg­an­um að bréfa­magnið myndi drag­ast sam­an um 21% í ár.

Kostnaður við hverja vitj­un að aukast

Þór­hild­ur Ólöf rakti á aðal­fund­in­um hvernig kostnaður við hverja vitj­un er að aukast – bréf­um fækki en lúg­um fjölgi – og tók svo dæmi af því hvernig lækka mætti kostnaðinn með því að hætta að bera út póst í hverja lúgu.

Af þessu til­efni spurði Morg­un­blaðið for­stjór­ann sér­stak­lega út í þetta í viðtal­inu í dag. Þar kom eft­ir­far­andi fram en tekið skal fram að for­stjór­inn samþykkti text­ann fyr­ir birt­ingu:

„Tekj­ur af alþjón­ustu fara minnk­andi en lúg­um fjölg­ar. Með því fer kostnaður af hverri vitj­un hækk­andi. Tæki­fær­in til hagræðing­ar fel­ast meðal ann­ars í breyt­ing­um á þjón­ustu­stigi og frek­ari tækni­væðingu í vinnslu fé­lags­ins. Við þurf­um eft­ir sem áður að fara heim til allra með bréf en til þess þurf­um við að hafa starfs­fólk. Það eru tak­mörk fyr­ir því hversu mikið er hægt að hagræða nema það komi hrein­lega til laga­breyt­ing­ar um að við þurf­um ekki að fara heim til allra,“ seg­ir Þór­hild­ur. Hún seg­ir aðspurð að fara mætti ýms­ar leiðir til að draga úr þess­um kostnaði. Einn mögu­leik­inn sé að af­henda póst­inn með smá­for­riti, eða appi, sem nálg­ast má ra­f­rænt. Þá nefn­ir hún í dæma­skyni að í Banda­ríkj­un­um hafi vanda­málið verið leyst með póst­kassa­vörðu við hverja götu. Hún ít­rek­ar að það sé ekki á hendi Ísland­s­pósts að taka slíka ákvörðun held­ur sé það hlut­verk lög­gjaf­ans.“

Ekki að íhuga að hætta út­b­urði bréfa

Þessi kafli í viðtal­inu var end­ur­sagður á forsíðu blaðsins í dag með fyr­ir­sögn­inni „Íhuga að hætta út­b­urði bréfa“.

Skilja má á til­kynn­ingu frá Póst­in­um að fyr­ir­tækið telji þetta oftúlk­un á þeim sjón­ar­miðum sem komu fram í ræðu for­stjór­ans á aðal­fund­in­um og í viðtali við Morg­un­blaðið. 

„Ísland­s­póst­ur er ekki að íhuga að hætta að bera út bréfa­póst enda get­ur fé­lagið ekki tekið ein­hliða ákvörðun um slíkt eða um aðra þætti sem snúa að alþjón­ustu­skyldu. Í viðtal­inu sem um ræðir var ein­ung­is verið að velta upp leiðum sem ríkið gæti farið til að lækka kostnaðar­grund­völl á alþjón­ustu, hvort sem um ræðir ra­f­ræna af­hend­ingu bréfa, póst­kassa­vörður eða aðrar út­færsl­ur. Það er ljóst að til framtíðar verður að skoða þjón­ustu­stig og út­færslu bréfa­dreif­ing­ar enda mun fækk­un bréfa óhjá­kvæmi­lega leiða til meiri kostnaðar. Ísland­s­póst­ur ít­rek­ar hins veg­ar að all­ar ákv­arðanir er varða alþjón­ustu eru tekn­ar af stjórn­völd­um en Ísland­s­póst­ur vinn­ur eft­ir sett­um lög­um og regl­um hverju sinni,“ sagði orðrétt í til­kynn­ing­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert