Íslandspóstur hefur ekki íhugað að hætta útburði bréfa í allar lúgur heldur eru slíkar breytingar aðeins á hygmyndastigi. Forstjóri fyrirtækisins ræddi slíkar hugmyndir á aðalfundi Íslandspósts í gær og jafnframt í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður þjónustupplifunar hjá Íslandspósti, sendi Morgunblaðinu tvo tölvupósta vegna málsins um hádegisbilið.
Fram kom í máli Þórhildar Ólafar Helgadóttur, forstjóra Íslandspósts, á aðalfundinum í gær að fyrirtækið væri að breytast úr því að vera fyrirtæki sem ber út póst yfir í að vera fyrirtæki sem dreifir pökkum. Benti hún á að magn bréfa hefði dregist saman um 37% í janúar.
Það er langt umfram þá áætlun sem birtist í viðtali við forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar í ViðskiptaMogganum að bréfamagnið myndi dragast saman um 21% í ár.
Þórhildur Ólöf rakti á aðalfundinum hvernig kostnaður við hverja vitjun er að aukast – bréfum fækki en lúgum fjölgi – og tók svo dæmi af því hvernig lækka mætti kostnaðinn með því að hætta að bera út póst í hverja lúgu.
Af þessu tilefni spurði Morgunblaðið forstjórann sérstaklega út í þetta í viðtalinu í dag. Þar kom eftirfarandi fram en tekið skal fram að forstjórinn samþykkti textann fyrir birtingu:
„Tekjur af alþjónustu fara minnkandi en lúgum fjölgar. Með því fer kostnaður af hverri vitjun hækkandi. Tækifærin til hagræðingar felast meðal annars í breytingum á þjónustustigi og frekari tæknivæðingu í vinnslu félagsins. Við þurfum eftir sem áður að fara heim til allra með bréf en til þess þurfum við að hafa starfsfólk. Það eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að hagræða nema það komi hreinlega til lagabreytingar um að við þurfum ekki að fara heim til allra,“ segir Þórhildur. Hún segir aðspurð að fara mætti ýmsar leiðir til að draga úr þessum kostnaði. Einn möguleikinn sé að afhenda póstinn með smáforriti, eða appi, sem nálgast má rafrænt. Þá nefnir hún í dæmaskyni að í Bandaríkjunum hafi vandamálið verið leyst með póstkassavörðu við hverja götu. Hún ítrekar að það sé ekki á hendi Íslandspósts að taka slíka ákvörðun heldur sé það hlutverk löggjafans.“
Þessi kafli í viðtalinu var endursagður á forsíðu blaðsins í dag með fyrirsögninni „Íhuga að hætta útburði bréfa“.
Skilja má á tilkynningu frá Póstinum að fyrirtækið telji þetta oftúlkun á þeim sjónarmiðum sem komu fram í ræðu forstjórans á aðalfundinum og í viðtali við Morgunblaðið.
„Íslandspóstur er ekki að íhuga að hætta að bera út bréfapóst enda getur félagið ekki tekið einhliða ákvörðun um slíkt eða um aðra þætti sem snúa að alþjónustuskyldu. Í viðtalinu sem um ræðir var einungis verið að velta upp leiðum sem ríkið gæti farið til að lækka kostnaðargrundvöll á alþjónustu, hvort sem um ræðir rafræna afhendingu bréfa, póstkassavörður eða aðrar útfærslur. Það er ljóst að til framtíðar verður að skoða þjónustustig og útfærslu bréfadreifingar enda mun fækkun bréfa óhjákvæmilega leiða til meiri kostnaðar. Íslandspóstur ítrekar hins vegar að allar ákvarðanir er varða alþjónustu eru teknar af stjórnvöldum en Íslandspóstur vinnur eftir settum lögum og reglum hverju sinni,“ sagði orðrétt í tilkynningunni.