Samkvæmt nýrri sviðsmynd eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands mun hraun ekki fara yfir Reykjanesbraut ef til eldgoss kemur við Fagradalsfjall, en ekki er útilokað að það nái niður á Suðurstrandarveg.
Vísindamenn háskólans reikna út líklegar rennslisleiðir hrauns út frá ýmsum þáttum. Ljóst er að það veltur á framleiðni gossins hve langt hraunið nær frá gosstað. Nýjasta kortið má sjá hér að neðan, þar sem sést að ólíklegasta rennslissvæðið nær alveg suður að Suðurstrandarvegi.
Einnig eru metnar líkur á því hvar nákvæmlega gosið kemur upp, þ.e. óháð því hvert það síðan flæðir. Hér hefur orðið breyting á spám, því nú er talið að það muni alfarið koma upp við Fagradalsfjall og hefur áætlað gossvæði því færst töluvert í suðvestur frá því sem áður var, þegar talið var að það yrði nær Keili.
Myndin hér að neðan sýnir vel að mögulegt eldsuppkomusvæði er fjarri þéttbýli.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni í morgun sagði að þótt skjálftavirknin sé áfram mikil hafi enginn órói mælst á svæðinu, en órói getur verið fyrirboði eldgoss. Alls mældust 2.800 jarðskjálftar á svæðinu í gær, og frá miðnætti hafa þeir verið fleiri en 700. Heildarfjöldi skjálfta frá því hrinan hófst fyrir tíu dögum er 22.000.