Það sem af er degi hafa mælst um 1.800 jarðskjálftar á Reykjanesskaga en í gær voru þeir alls 2.800 talsins. Sérfræðingur Veðurstofu Íslands segir við mbl.is að staðan sé óbreytt miðað við fyrri daga. Enn mælist skjálftavirkni vegna kvikugangs sem er í mótun undir Fagradalsfjalli og Keili en enginn órói hefur mælst.
Síðasti skjálfti yfir 4 stigum var í hádeginu í gær og í dag hafa aðeins orðið 13 skjálftar á svæðinu yfir 3 stigum, sá stærsti klukkan 04:11 af stærðinni 3,6. Þrátt fyrir að skjálftarnir séu minni en þeir voru við upphaf skjálftahrinunnar áréttir veðurfræðingur að 2.800 skjálftar á þessu svæði sé margfalt það sem dæmigert þykir.
Vísindaráð fundaði í dag og von er á fréttatilkynningu frá Veðurstofunni um kvöldmatarleytið þar sem nýjustu tölur yfir fjölda skjálfta verða uppfærðar. Þangað til má segja að staðan sé óbreytt á Reykjanesskaga.