Karlmaður var í nótt handtekinn í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann var í óðaönn að berja í bifreiðar með hamri. Var hann í annarlegu ástandi og með fíkniefni á sér. Hann situr nú í fangageymslu meðan málið er í rannsókn. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar úr verslun í Háaleitis- og Bústaðahverfi og málið afgreitt á staðnum.
Í Hafnarfirði var maður handtekinn fyrir að veitast að fólki en hann var í mjög annarlegu ástandi að því er segir í skýrslu og var hann látinn sofa úr sér í fangaklefa.
Nokkuð var um ölvunarakstur eins og jafnan um helgar auk þess sem nokkrir ökumenn reyndust undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra var í Grafarvogi en sá var undir lögaldri og var haft samband við foreldra hans.