Bjartur Norðfjörð vaknaði rétt fyrir klukkan fjögur í nótt til að hlaupa fyrstu 6,5 kílómetrana í tólf lotna hlaupaáskorun sem spannar samtals tvo sólarhringa. Þar er markmiðið að hlaupa fjórar mílur á hverjum fjórum klukkustundum í 48 tíma.
„Ég sé það alveg núna að þetta verður ekkert rosalega auðvelt,“ segir Bjartur í samtali við mbl.is.
Hann lætur það þó ekki á sig fá enda er hlaupið í nafni góðs málstaðar. Bjartur er að safna fyrir kunningja sinn Brand Bjarnason Karlsson, sem sjálfur er á leið í ferð um landið til að vekja athygli á réttindum fatlaðra.
Þegar hafa safnast meira en 200.000 krónur inn á reikning: „Það gengur ekkert smá vel og þetta er strax komið langt fram úr væntingum,“ segir Bjartur. Hann segir að Bjarni sé mjög ánægður með aðstoðina.
Bjartur segir að hann sjái fram á að næturnar verði erfiðastar og það hafi verið skrýtin tilfinning að vera að skokka um miðja nótt, þegar enginn var á ferli. Á meðan enn er bjart er þetta þó hægðarleikur, Bjartur fær tíma til að borða og hvíla sig aðeins á milli hlaupa. Hann á rúmlega einn og hálfan sólarhring eftir.