Íslenska ríkið útvistaði málarekstri Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra á hendur Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, umsækjanda um starf ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu, þar sem reynt er að hnekkja úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.
Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður Lilju, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Víðir Smári Peterson, lögmaður á lögmannsstofunni LEX, hafi verið fenginn í verkið og er hann settur ríkislögmaður. Víðir hefur starfað á lögmannsstofunni frá árinu 2009 en hann var um tíma varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óvenjulegt er að málum ríkisins sé útvistað til lögmannsstofu í stað þess að ríkislögmaður taki að sér málarekstur, en lagaheimild til slíkrar útvistunar var nýtt. Kann þar að spila inn í að Hafdís er skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu en ríkislögmaður heyrir undir ráðuneytið.
Hafdís var meðal umsækjenda um stöðuna en svo fór að Páll Magnússon, fyrrverandi flokksbróðir Lilju, fékk starfið. Hafdís kærði úrskurðinn til kærunefndar jafnréttismála sem úrskurðaði að jafnréttislög hefðu verið brotin við ráðninguna.
Lilja Alfreðsdóttir stefndi þá Hafdísi fyrir héraðsdóm til að freista þess að ógilda úrskurð kærunefndarinnar, en dómurinn staðfesti þvert á móti úrskurð kærunefndarinnar. Hefur Lilja áfrýjað þeim úrskurði til Landsréttar.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur mbl.is eða öðrum fjölmiðlum ekki tekist að ná tali af Lilju vegna málsins, en samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmönnum hennar mun hún ekki tjá sig um málið fyrr en niðurstaða Landsréttar liggur fyrir.