Aukin dreifing jarðskjálfta á Reykjanesi gerir það að verkum að eldsuppkomunæmi hefur breyst talsvert frá því í gær. Mögulegum gossvæðum á Reykjanesi fjölgar og eru nú sjö svæði nefnd sem hugsanleg uptök ef til goss kemur.
Öll eru svæðin fjarri íbúabyggð, en langmestar líkur eru taldar á því að eldur kæmi upp á Fagradalssvæðinu komi til goss. Önnur gossvæði eru Trölladyngja-Djúpavatn, austan við Fagradalsfjall og Þorbjörn, Sýlingafell og Stóraskógfell vestan við fjallið.
Um 1.300 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga frá miðnætti til hádegis í dag, þeirra stærstur skjálfti 5,0 að stærð um klukkan tvö í nótt. Þá hafa hátt í 40 skjálftar verið yfir 3 að stærð, þar af fimm yfir 4. Skammvinnur óróapúls mældist skömmu eftir miðnætti en hann var styttri og ekki eins öflugur og púlsinn sem mældist á miðvikudag, að því er segir á vef Veðurstofunnar.