Sturlaugur Jón Björnsson, bruggari hjá Borg brugghúsi, skartaði einhverju voldugasta alskeggi landsins. Alveg þar til hann heimsótti rakarann Nonna Quest.
„Ég fylltist eiginlega frelsistilfinningu eftir raksturinn. Manni var náttúrulega svolítið kalt fyrst en síðan venst þetta bara nokkuð vel. Ég hugsa að þetta skeggleysi sé komið til að vera, alla vega meðan ég nenni að standa í því að raka mig,“ segir Sturlaugur í samtali við mbl.is.
Hann segir enga stóra ástæðu fyrir því að hann ákvað að láta skeggið fjúka. „Þetta var bara komið gott. Mér sýnist að þetta komi í fjögurra ára tímabilum hjá mér, ég safna í fjögur ár og fæ þá ógeð á þessu. Síðast þegar ég rakaði mig hafði ég verið með skegg í rúm fjögur ár og þá snyrti ég það bara. Núna eru önnur fjögur ár liðin og ég ákvað að fara alla leið. Það er pínu skrítið að vera alveg nakinn í fyrsta skipti í tæp níu ár.“
Sturlaugur hefur um árabil bruggað bjór hjá Borg brugghúsi en nýlega víkkaði hann út starfssvið sitt og hóf að framleiða handverksgos hjá Öglu gosgerð. Hann kveðst ekki hafa áhyggjur af því að vera úthýst á vinnustað sínum en í stétt bruggara virðist enginn karlkyns vera maður með mönnum nema skarta myndarlegu skeggi. „Er það ekki bara jákvætt að vera eini bruggarinn sem er ekki með skegg?“ segir hann aðspurður.
Bruggarinn viðurkennir að útlit hans hafi vakið nokkra athygli á almannafæri áður en hann rakaði sig. „Fólk horfði alveg á eftir manni en ég fékk alltaf mjög jákvæð viðbrögð. Núna er maður bara ósköp venjulegur rakaður fjölskyldufaðir. Ætli ég hafi ekki verið kominn með leið á frægðinni?“