Malbik sprungið við HS Orku í Grindavík

Afleggjarinn við HS Orku í Grindavík er illa farinn.
Afleggjarinn við HS Orku í Grindavík er illa farinn. Ljósmynd/Svanhvít Másdóttir

Malbik hefur sprungið upp við afleggjarann að HS Orku í Grindavík vegna skjálftahrinunnar sem enn ríður yfir Reykjanesskagann og gert hefur í á aðra viku. Á myndum sem Svanhvít Másdóttir, íbúi í Grindavík, tók má sjá hvernig bæði malbik hefur sprungið og hrunið hefur úr grjóthlöðnum vegg. 

Svanhvít segir við mbl.is að skemmdirnar virðist töluverðar enda nálægt upptökum skjálftanna. Hún segir að skjálftahrinan taki auðvitað á.

„Nóttin í nótt var ekkert auðveld, ég skal alveg viðurkenna það,“ segir hún. Í nótt reið yfir skjálfti af stærðinni 5 sem eflaust hefur vakið margan Grindvíkinginn.

„En ég geri mér grein líka fyrir því að við erum með flott vísindafólk og jarðvísindamenn og við fáum góðan fyrirvara ef eitthvað gerist og maður telur nú ekki líklegt að maður þurfi að yfirgefa svæðið.“

Ljósmynd/Svanhvít Másdóttir
Ljósmynd/Svanhvít Másdóttir

Upplifði Eyjagosið sem barn

Svanhvít upplifði Vestmannaeyjagosið árið 1973 sem lítil stúlka og hefur því áður lent í að heimabær hennar er rýmdur vegna goss. Hún segist þó ekki telja að stefni í svipaða atburðarás núna en viðurkennir að það yrði skrýtið að upplifa annað gos svona nálægt sér.

Hún segist einnig kippa sér lítið upp við skjálfta sem ríða yfir á daginn en það sé ekki skemmtilegt að vakna við þá á næturnar. Að sama skapi viti maður þó að ekkert sé hægt að gera þegar skjálftarnir skella á.

„Það eina sem hægt er að gera er bara að bíða og vona það besta,“ segir Svanhvít.

Ljósmynd/Svanhvít Másdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert