Smitfréttir dagsins minna okkur öll á að slaka ekki á sóttvörnum. Nú er fjöldi fólks kominn í sóttkví og enn fleiri boðaðir í sýnatöku. Það verður fylgst vel með þróun mála næstu daga og allt er gert til að ná utan um þetta smit.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra eftir fréttir dagsins þess efnis að tveir hefðu greinst með svokallað breskt afbrigði Covid-19.
Tugir eru komnir í sóttkví vegna smitanna og sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fyrr í dag að það ráðist eftir morgundaginn hvort innanlandssmitin í gær hrindi af stað fjórðu bylgju faraldursins hér á landi.
„Svo er bara að gera það sem við höfum sýnt að skilar árangri; fylgjum reglunum um fjöldatakmarkanir og fjarlægðir og grímunotkun, þvoum okkur um hendur og sprittum okkur – fyrir okkur öll,“ skrifar Katrín.