Mögulegt hópsmit af völdum breska afbrigðisins af Covid-19 er í uppsiglingu eftir að tveir greindust síðustu tvo daga utan sóttkvíar með hið svokallaða breska afbrigði veirunnar, sem talið er meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar hér á landi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna nú síðdegis að farþegi hefði komið hingað til lands 26. febrúar með neikvætt PCR-próf og neikvæða fyrri skimun á landamærum. Seinni skimun, fimm dögum eftir komuna til landsins, hefði hins vegar verið jákvæð og viðkomandi með breska afbrigði veirunnar.
Sá sem kom að utan virðist hafa smitað tvo í sóttkvínni en Þórólfur segir þrátt fyrir það að ekki sé að sjá í rakningu að viðkomandi hafi brotið sóttvarnareglur. Fólkið hafi búið í sama stigagangi í fjölbýli.
Þessir tveir gætu hafa smitað nokkurn fjölda, innan Landspítala og á tónleikum á Hörpu en annar þeirra sem smituðust fór á tónleika hjá Víkingi Heiðari Ólafssyni í Hörpu á föstudagskvöld.
Á morgun, mánudag 8. mars, er fyrirhuguð skimun á öllum tónleikagestum. Þeir sem ætla að mæta í skimun í tengslum við tónleikana verða að bóka tíma í gegnum Mínar síður á Heilsuvera.is og velja þar „Tónleikagestur í Hörpu 5. mars 2021“. Þeir sem skrá sig fá sent strikamerki og tímasetningu fyrir skimun.
Mörg sýni hafa verið tekin vegna smitanna og nokkrir tugir settir í sóttkví vegna þeirra.
Þórólfur segir þetta sýna hversu lítið þurfi til að ný bylgja fari af stað en mikilvægt sé að bregðast hratt við og reyna að kæfa dreifileiðir smits.
Sóttvarnalæknir segir enn fremur að næstu tveir sólarhringar skipti sköpum varðandi stöðuna. Í framhaldinu verði hægt að sjá hversu útbreitt smitið er og hvort þá þurfi að grípa til harðari aðgerða.