Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að símtal úr fjarskiptamiðstöð lögreglu þar sem lögregluþjónn spyr um ríkisfang sé til skoðunar.
Mbl.is greindi frá því í gær að ung kona hefði hringt eftir aðstoð vegna þess sem hún taldi vera heimilisofbeldi, og spurði lögregluþjónn í fjárskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hana þá hvort fólkið væri Íslendingar eða útlendingar. Gat hann ekki gefið konunni skýringar á spurningunni, en hringdi þó síðar til að segjast hafa viljað betri lýsingu á fólkinu.
Sigríður Björk segir málið í skoðun og að afla þurfi skýringa hjá viðkomandi starfsmanni.
„Það er allt tekið upp þannig að það sem við munum gera núna er að hlusta á símtalið og taka samtal við viðkomandi, hvað hann var að meina,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.
Spurð um framhaldið sagðist Sigríður fyrst vilja kynna sér málið áður en ákvörðun væri tekin.