Heiðarbýlið Þeistareykir var búið að vera í eyði í hátt á annað hundrað ár þegar framkvæmdir hófust við Þeistareykjavirkjun sem hefur breytt umhverfi og aðstæðum gríðarlega á þessari fornu bújörð. Um aldir var oft ófært þangað á vetrum vegna mikilla snjóa en í dag er hægt að aka frá Húsavík upp að virkjuninni á bundnu slitlagi og tekur sú ferð ekki langan tíma. Þykir fólki það miklar framfarir. Það breytir ekki því að oft eru veður válynd á svæðinu og það getur verið erfitt færi upp Reykjaheiðina.
Í dag sér fyrirtækið Fjallasýn um að halda veginum opnum og eru það feðgarnir Rúnar Óskarsson og Andri Rúnarsson sem hafa umsjón með snjómokstrinum.
„Veturinn í fyrra er eitthvað sem aldrei gleymist en það var gaman að taka þátt í því. Það var ofboðslegur snjór og stikur voru settar ofan á aðrar stikur til þess að sjá veginn. Og stundum sást lítið í efri stikurnar svo það var erfitt að vita hvar vegurinn var.“
Þetta segir Andri Rúnarsson hjá Fjallasýn, en hann hefur orðið mikla reynslu í því hvar veður verða verst á svæðinu. Hann segir að á Grjóthálsi og meðfram Höskuldsvatni sé oft mjög hvasst og veðravont en það sé lygnara við Höfuðreiðamúla þegar nálgast virkjunarsvæðið. Um tíma var ástandið þannig að það þurfti nokkra auka snjóblásara fyrir utan þau tæki sem Fjallasýn er með einnig þurfti að fá tvær jarðýtur og snjótroðara til þess að hægt væri að halda veginum opnum.
Í vetur hefur þetta verið allt annað og léttara en mokstur fer fram þá daga sem þarf. Ekki hvílir sú skylda á fyrirtækinu að halda þessu alltaf opnu, t.d. ef veðrið leyfir ekki að sé mokað og þá verður stundum ófært þar til birtir.
Frá Þeistareykjum liggja vegir til margra átta og liggur ein slóðin um Hólasand í suður að Kísilvegi. Til stendur að setja slitlag á þann kafla og er undirbúningur þegar hafinn. Það verður mikil samgöngubót. Ekki er talið að til standi að laga aðra vegslóða á svæðinu en vegurinn upp Reykjaheiðina frá Húsavík er sú leið sem mest er notuð í dag og t.d. eru vetraríþróttir mun meira stundaðar þarna eftir að vegurinn kom.
Þennan veg aka líka allir þeir sem keyra fé í afrétt á vorin en Þeistareykir eru afréttarland Aðaldælinga og Reykdælinga. Þúsundum fjár er þar sleppt á fjall enda gríðarlega grösugt svæði í kringum þetta gamla heiðarbýli. Þar var byggt gangnamannahús árið 1958 sem er hitað upp með jarðvarma og þar hefur einnig verið byggt mjög gott hesthús.
Það þarf ekki veturinn til þess að veðrið versni á Þeistareykjum en allir muna vel eftir hausthretinu í byrjun september árið 2012 þegar þúsundir fjár lentu þar í hrakningum í iðulausri stórhríð. En oft breytast veður í lofti og á fallegum vetrardegi er útsýnið mikið og þá finnst mörgum að þarna geti verið búsældarlegt.
Til þess að halda opnum vegi heim að svona heiðarbýli, þar sem nú er virkjunin, þarf að eiga góðar vélar og þeir feðgar hjá Fjallasýn eru með mjög góð tæki og nýlega stóra dráttarvél með öflugum snjóblásara og tönn. Þessu hefur Andri mjög gaman af og finnst ekki leiðinlegt að fást við snjóinn á Þeistareykjavegi.