Ríflega 10% þeirra 280.000 sem verður boðin bólusetning við Covid-19 hérlendis hafa þegar fengið bólusetningu, þótt henni sé ekki lokið í öllum tilvikum. Ísland er nú í 16. sæti yfir þau lönd sem hafa gefið þegnum sínum flesta bóluefnaskammta.
Útlit er fyrir að 34.000 skammtar af bóluefni Pfizer komi til landsins í aprílmánuði, en sá fjöldi nægir til þess að bólusetja 17.000 manns.
Samkvæmt tölum á vefnum Covid.is er bólusetning hafin hjá 16.607 manns og eru 12.710 fullbólusettir. Því hafa 29.317 fengið bóluefni gegn Covid-19 hér á landi, eða rúmlega 10% þeirra 280.000 sem fá boð í bólusetningu.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur afhendingaráætlun sem gildir lengur en til marsloka hér á landi skort. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði við mbl.is fyrr í dag að línur væru að skýrast í þeim efnum.
„Við erum með áætlun frá Pfizer um aprílmánuð, það eru um 34.000 skammtar sem koma frá Pfizer í aprílmánuði,“ sagði Þórólfur. Hver og einn þarf tvo skammta af efninu til þess að öðlast fulla bólusetningu og nægir efnið því fyrir 17.000 manns.
Tölur frá hinum bóluefnaframleiðendunum, Moderna og AstraZeneca, eru að berast, að sögn Þórólfs, og verður skammtafjöldinn svipaður og áður en skammtar frá fyrirtækjunum tveimur hafa borist reglulega til landsins frá því fyrr á árinu.
Bólusetning með bóluefni AstraZeneca er hafin hjá 8.119 manns hér á landi en hjá 1.402 með bóluefni Moderna. Þá er bólusetningu lokið hjá 1.249 manns með bóluefni Moderna. Stærsta bitann af kökunni á Pfizer, en bólusetning er hafin hjá 7.086 manns hérlendis með bóluefni fyrirtækisins en 11.461 hefur fengið fulla bólusetningu með bóluefni Pfizer hérlendis.