„Fangi refsivörslukerfisins“

María Árnadóttir, ein kærenda til Mannréttindadómstóls Evrópu.
María Árnadóttir, ein kærenda til Mannréttindadómstóls Evrópu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

María Árnadóttir er ein þeirra kvenna sem hafa lagt fram kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu á hendur íslenska ríkinu. María á það sameiginlegt með hinum konunum átta að hafa kært mál til lögreglu, í hennar tilfelli ofbeldi í nánu sambandi, en málið var fellt niður eftir rannsókn lögreglu og fór aldrei fyrir dómara. 

En samkvæmt fréttatilkynningu frá Stígamótum gefa tölur til kynna að 70-85% mála þar sem konur tilkynna ofbeldi til lögreglu séu felld niður á leið sinni í gegnum réttarkerfið. 

Á fundi í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sem boðað var til af 13 kvenna- og jafnréttissamtökum, til að vekja athygli á kerfisbundu misrétti gegn konum í réttarkerfinu, steig María fram og sagði sögu sína af réttarkerfinu sem hún segir vera virkilega brotið.

María kærði ofbeldi í nánu sambandi til lögreglu árið 2017, við tók margra mánaða bið þar sem hún segist hafa fengið nánast engar upplýsingar um gang málsins sem reyndist henni verulega streituvaldandi.

Vitni í eigin máli

Að sögn Maríu hefur brotaþoli ekki lagalegan rétt á gögnum máls og getur þar af leiðandi ekki fylgst með málinu sínu, til að mynda hvort búið sé að sækja gögn, kynna sakborningi sakarefni, tala við vitni og þess háttar.

María sagði að í sínu máli hefði skýrsla ekki hafa verið tekin af sakborningi fyrr en í september, 2018 rúmlega 8 mánuðum eftir kæru en þá hafi líkamsárásarbrotin í raun verði fyrnd án þess að henni hafi verið kunnugt um það á þeim tíma.

„Ég get ekkert gert, því ég var bara vitni í eigin máli, ég hef engar kæruheimildir eða neitt. Ég hefði getað bjargað málinu mínu frá fyrningu hefði ég haft kæruheimild á rannsóknarstigi, ég vissi að þetta var eitthvað bogið, þetta var ekki að ganga og lögfræðingurinn í mér vissi bara, nei þetta er ekki í boði.“

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um það bil einu ári eftir kæru fékk María bréf frá saksóknarfulltrúa þess efnis að málið þætti ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellingar og var málið fellt niður í heild sinn.

María segir þó að í málinu hafi legið fyrir játning og afsökunarbeiðni frá geranda í samskiptaformi, tveir samskiptaseðlar frá lækni um áverka og staðfesting frá Bjarkarhlíð. María lagði öll gögnin sjálf fram við kæru árið 2017.

„Rúmlega viku eftir niðurfellingu máls gafst líkaminn minn upp vegna langvarandi streitu og ég fékk alvarlegt taugaáfall eftir þriggja dag vöku, grát og vanlíðan, ég var frá vinnu í þrjá mánuði og sett á svefn- og kvíðalyf, ég missi minnið að hluta til sem er í kjölfarið á taugaáfalli, ég missi jaðarsjónina og var ekki í ástandi til að keyra bifreið í nokkra mánuði því líkamskerfið var ofhlaðið áfalli,“ sagði María.

Auk þess greindist hún með alvarlega áfallastreituröskun sem var henni lífshættuleg, hún greindist með álagsháþrýsting, kipptist til við minnstu hreyfingar og hljóð og var allan sólarhringinn viðbúin árás, hún varð að gera hlé á meistaranámi í lögfræði og vegna álags á hjarta- og æðakerfi varð hún að fara í ófrjósemisaðgerð.

„Ég hef greitt á þriðja hundrað þúsund fyrir sérstaka EMDR-áfallastreituröskunarmeðferð vegna afleiðinga brota geranda og ákæruvalds.“ 

„Fangi refsivörslukerfisins“

„Ég upplifði alla málsmeðferðina mína eins og ég væri fangi refsivörslukerfisins sem brást mér algjörlega og refsaði mér stöðugt með áfalli eftir áfall,“ sagði María.  

Með því að vekja athygli á sinni upplifun af réttarkerfinu vill María leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að aðrir brotaþolar þurfi að ganga þau þungu skref sem hún hefur gengið.

„Svo mikilvægt að taka þetta skref og nota þessa hræðilegu málsmeðferð til þess að reyna að koma í veg fyrir að aðrir þurfi að ganga þessi skref sem ég hef þurft að ganga sem eru gríðarlega erfið.“

María sagði í samtali við mbl.is að réttarkerfið væri mikið bákn að berjast við eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi.

„Málsmeðferðin hefur verið íþyngjandi og löng, sérstaklega þar sem það er verið að brjóta á réttindum mínum af ákæruvaldi, það er svona erfiðast að lenda í þessu, og svo ítrekað eins og í málinu mínu, brot eftir brot eftir brot.“

„Þegar brotin eru að eiga sér stað allan þennan tíma þá er eiginlega pínulítið eins og kerfið sé að sparka í liggjandi manneskju sem á endanum gefst upp og því miður eru flestir sem gefast hreinlega upp við niðurfellingu málsins, en ég gafst ekki þar upp. Ég gat ekki hugsað mér annað en að tæma allar kæruheimildir sem ég hafði, en það eru ekki allir sem geta það, þeir eru bara það brotnir,“ sagði María.

„Sú meðferð sem mál mitt fékk í höndum lögreglu og ákæruvalds sýnir hversu mikilvægt það er að bæta réttarstöðu brotaþola,“ sagði María.

Kerfið á að grípa þig

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður á Rétti, segir vonina auðvitað verða sú að brugðist verði við málunum níu óháð því hvaða niðurstaða verður hjá Mannréttindadómstólnum. Með ákærunum sé verið að senda skilaboð að þarna sé fjöldi kvenna sem séu mjög ósáttar með málsmeðferðina í sínum málum.

„Það er náttúrulega óásættanlegt að brotaþolar í svona málum upplifi mikið óréttlæti varðandi málsmeðferð lögreglu, það er auðvitað nóg að hafa lent í brotinu sjálfu, síðan á kerfið að grípa þig,“ sagði Sigrún í samtali við mbl.is og bætti við að af upplifun Maríu megi sjá að það sé annað áfall að fara í gegnum málsmeðferðina.

„Við vonum auðvitað bara að það verði brugðist við því og gripið til einhverra aðgerða til þess að auðvelda þessa málsmeðferð fyrir brotaþolana,“ sagði Sigrún.

Sigrún bendir á að niðurstaða Mannréttindadómstólsins breyti ekki niðurstöðunni í þessum einstaka málum heldur sé þetta „viðurkenning á ranglæti í besta falli“.

Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður á Rétti.
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður á Rétti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska ríkið brýtur á konum

Í fréttatilkynningu frá Stígamótum kemur fram að við ítarlega yfirferð Sigrúnar komu í ljós ýmsar brotalamir í rannsókn og meðferð málanna níu innan réttarvörslukerfisins.

Kom þá fram í tilkynningunni að íslenska ríkið bryti á konum með ýmsum hætti. Það væru alvarlegir annmarkar á rannsókn lögreglu, þannig fyrndust til dæmis mál í höndum lögreglu og tóku of langan tíma í rannsókn.

Þar að auki var lítið sem ekkert sönnunargildi lagt í sönnunargögn sem væru til staðar í málunum eins og til dæmis sönnunargögn á vettvangi og játningar sakborninga voru þá ekki teknar til greina.

Auk þess segir að að gengið hafi verið gegn vilja löggjafans við túlkun laganna, meðal annars með því að í mörgum málum hafi verið einblínt á hvort sakborningur hafi mátt gera sér grein fyrir því að brotaþoli hafi ekki veitt samþykki, til dæmis sökum ölvunarástands, fremur en á það hvort hann hafi fengið samþykki, eins og lögin kveða á um.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í lok fundarins bauð Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, Íslensku kvennahreyfinguna, þau 13 samtök sem stóðu að fundinum, velkomna á sviðið og lagði fram kröfur hreyfingarinnar.

Kröfurnar ásamt þeim brotalömum sem fundust í yfirferð Sigrúnar má finna á vef Stígamóta. 

Í lok fundarins bauð Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, …
Í lok fundarins bauð Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, Íslensku kvennahreyfinguna, þau 13 samtök sem stóðu að fundinum, velkomna á sviðið og lagði fram kröfur hreyfingarinnar. Ljósmynd/Gunnhildur Sif
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert