Frá VG til Bændasamtakanna

Kári Gautason lenti í fjórða sæti í forvali VG í …
Kári Gautason lenti í fjórða sæti í forvali VG í Norðausturkjördæmi, en sóttist eftir öðru sæti. Ljósmynd/Aðsend

Kári Gautason, fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna, hefur verið ráðinn til Bændasamtaka Íslands. 

Starf hans þar er nýtt og felst í úrvinnslu og greiningu hagtalna landbúnaðarins, ásamt því að koma að hagrænum greiningum sem tengjast umhverfis- og loftlagsmálum, fæðuöryggi og tryggingamálum.

Kári er uppalinn í Engihlíð í Vopnafirði. Hann hefur síðastliðinn þrjú ár starfað á Alþingi sem framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna. Hjá þingflokki VG var hann til ráðgjafar fyrir þingmenn, sérstaklega í málum fjárlaganefndar og atvinnuveganefndar þingsins.

Þar áður var Kári í sérverkefnum hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) við endurmat á ræktunarstarfi í mjólkurframleiðslu. Kári hefur einnig reynslu af búskap úr Vopnafirði, en þar vann hann við loðdýrarækt og mjólkurframleiðslu, samhliða ráðgjafastarfi í ræktun og skýrsluhaldi loðdýra hjá RML, eins og segir í tilkynningu frá Bændasamtökunum.

Ásamt því að vera með búvísindagráðu frá Landbúnaðarháskólanum er Kári með meistaragráðu frá Árósaháskóla í Danmörku í búfjárerfðafræði. Lokaverkefni hans snerist um að meta hagrænt gildi þess að taka upp erfðamengisúrval í loðdýrarækt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert