Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segist ekki vita til þess að neinn þeirra, sem farið hafa í skimun fyrir Covid-19 vegna smitaðs einstaklings sem var staddur í Eldborg á tónleikum á föstudaginn, hafi hingað til greinst með veiruna.
Allir gestir á tónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar fengu tölvupóst þar sem þeim var boðið í skimun fyrir veirunni ef ske kynni að veiran hefði náð að berast manna á milli.
Vegna þessara tíðinda, sem komu fram í gær, voru sóttvarnaráðstafanir hertar enn frekar á tónleikunum í gærkvöldi. Í því fólst að gestum var hleypt út úr salnum í hollum, eftir því í hvaða sóttvarnarhólfum þeir voru. Þetta var gert til þess að forðast mannþröng við útganga að loknum tónleikum. Gaf þetta góða raun.
Að sögn Svanhildar voru samkvæmt hennar bestu vitund um 40 gestir sem hættu við að koma eða óskuðu eftir endurgreiðslu á miðum á tónleikana, sem Svanhildur segir að sé mjög lágt hlutfall. 800 manns komast fyrir í salnum í fjórum sóttvarnarhólfum.
Svanhildur fór sjálf í skimun á morgun og sá þar fjölda fólks drífa að á Suðurlandsbraut til að fara í sýnatöku. „Auðvitað vonum við öll að þau smit sem eru komin upp verði ekki til þess að aftur þurfi að grípa til þeirra ströngu takmarkana sem við höfum búið við í vetur,“ segir Svanhildur. „Maður finnur mjög vel hvað fólk er þyrst í að koma saman til að njóta menningar og lista.“
Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur verið með vikulega tónleika á fimmtudögum frá því í janúar en eftir síðustu tilslakanir var unnt að fjölga umtalsvert í salnum. Síðustu tvo fimmtudaga hafa verið um 700 gestir í Eldborg á tónleikum sveitarinnar.