Öll sýnin sem voru tekin vegna tveggja innanlandssmita kórónuveirunnar sem greindust utan sóttkvíar um helgina reyndust neikvæð. Sýnin voru tekin hjá starfsfólki Landspítala og í kringum þá tvo sem smituðust innanlands.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá þessu í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Í dag fer fram smitrakning á meðal tónleikagesta í Hörpu þar sem annar hinna smituðu sótti tónleika þar á föstudag.
Innanlandssmitin sem um ræðir greindust í gær en smitin eru þau fyrstu sem greinast utan sóttkvíar í einn og hálfan mánuð. Í báðum tilvikum greindust hinir smituðu með hið breska afbrigði veirunnar.
Á upplýsingafundi almannavarna í gær kom fram að mögulegt hópsmit af völdum breska afbrigðisins væri í uppsiglingu.