Samræmdum könnunarprófum fyrir 9. bekkinga sem fyrirhuguð voru í vikunni, í stærðfræði og ensku, hefur verið frestað og boðið verður upp á að endurtaka íslenskuprófið sem fram fór í dag.
Greint var fyrr í dag frá tæknilegum örðugleikum sem upp komu þegar prófið var lagt fyrir í morgun.
Í tilkynningu frá Menntamálastofnun, sem ber ábyrgð á framkvæmd prófanna, segir að 3.500 nemendur af 4.200 hafi lokið prófinu en ljóst sé að hluti nemenda tók prófið við ófullnægjandi aðstæður.
„Skólum er gefinn kostur á að leggja öll þrjú samræmdu könnunarprófin fyrir á tveggja vikna tímabili frá og með næsta mánudegi. Þannig hafa skólar val um hvaða próf þeir leggja fyrir og hvenær á tímabilinu 15.-26. mars. Allir nemendur innan hvers skóla verða að taka sama próf á sama degi,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.