Safnaði tæpri hálfri milljón

Brand­ur Bjarna­son Karls­son er frum­kvöðull, listamaður og æv­in­týra­gjarn ein­stak­ling­ur. Bjart­ur …
Brand­ur Bjarna­son Karls­son er frum­kvöðull, listamaður og æv­in­týra­gjarn ein­stak­ling­ur. Bjart­ur Norðfjörð, til hægri, hljóp til að safna fyr­ir ferðalagi Brands um landið í vor. Ljósmynd/Aðsend

Bjartur Norðfjörð lauk 78,2 kílómetra hlaupi í nótt þegar hann kom heim eftir tólf lotna hlaupaáskorun, þar sem hlaupnar voru fjórar mílur á fjögurra klukkustunda fresti. Meðan á áskoruninni stóð tókst Bjarti að safna 446.000 krónum til handa Brandi Bjarnasyni Karlssyni fötlunaraðgerðasinna.

Þar með er Brandur kominn með góðan sjóð sem hann notar í maí, þegar hann hyggur á ferðalag um landið til að vekja athygli á málefnum fatlaðra. Hann hefur verið ötull talsmaður fyrir bættu aðgengi frá því hann lamaðist sjálfur fyrir neðan háls fyrir rúmum áratug.

Bjartur hljóp í tvo sólarhringa, frá aðfaranótt laugardags til mánudagsmorguns. Hann segist hafa verið orðinn verulega ruglaður undir lokin enda lítið um samfelldan svefn. Þreytan var líka mikil, því um leið og fæturnir voru komnir í hvíld eftir síðasta hlaup þurfti að rjúka af stað í það næsta.

Árangurinn var meiri en Bjartur þorði að vona. „Upphæðin var í raun og veru miklu meiri en ég bjóst nokkurn tímann við að ég gæti farið að safna með einhverjum hlaupum. Brandur var líka ekkert eðlilega ánægður með þetta og sagði við mig: „Nú ert þú búinn að kveikja eldinn og það er undir mér komið að halda honum gangandi.“ Hann ætlar að halda áfram með þetta verkefni,“ segir Bjartur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert