Staðan varðandi innlagnir á Landspítalann er áfram þung, að sögn Hjalta Más Björnssonar, yfirlæknis á bráðamóttöku spítalans. Verið er að vinna í því að bæta flæði og útvega öllum nauðsynlegt pláss eins fljótt og hægt er.
„Það er mikil vinna í gangi bæði innan Landspítala og utan að útvega bæði hjúkrunarrými þeim sem þess þurfa og viðeigandi legudeildarrými á Landspítalanum. Ég hef fulla trú á því að við vinnum okkur út úr þessari stöðu,“ segir Hjalti Már. Eins og staðan er núna eru á annan tug sjúklinga að bíða eftir innlögnum á legudeildir en staðan sveiflast töluvert yfir sólarhringinn.
Spurður hvenær hann haldi að ástandið lagist segir hann erfitt að spá nákvæmlega fyrir um það en það muni örugglega taka einhvern tíma. „Ég vil taka það fram að það fá allir þjónustu sem þurfa á bráðamóttökunni en biðtíminn því miður er í einhverjum tilvikum aðeins lengri en við myndum vilja sjá,“ greinir hann frá.
Stjórnendur Landspítalans hafa beint þeim tilmælum til fólks að það leiti frekar til heilsugæslunnar eða á Læknavaktina ef um er að ræða minni háttar slys eða veikindi.
Hjalta Má finnst fólk almennt leita mjög skynsamlega á bráðamóttökuna og hvetur fólk til að koma þangað sem heldur að ástandið sé brátt eða hættulegt. „Við bendum jafnframt á að ef ekki er um brátt ástand að ræða er yfirleitt hægt að fá heppilegri og betri þjónustu á viðeigandi sérhæfðum einingum í heilbrigðiskerfinu,“ segir hann og á við heilsugæsluna eða aðra staði í heilbrigðiskerfinu.