„Í lögunum núna þá getum við skyldað fólk undir ákveðnum kringumstæðum til þess að fara í farsóttarhús. Það er auðvitað neyðarúrræði fyrir mjög marga en þeir sem eru með breska afbrigðið, við höfum klárlega heimild til að setja þá í farsóttarhús,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í Kastljósi á Rúv. í kvöld.
Hann sagði sömuleiðis þurfa að skoða alvarlega hvort að breyta þurfi reglum um sóttkví við komu til landsins þannig að fólk geti ekki verið í fjölbýlishúsi. Hann sagðist hafa viðrað þá hugmynd og hún væri til skoðunar.
Þá velti Þórólfur því upp hvort að slíkar takmarkanir væru raunhæfar þar sem breytingar reglna í þá veru gætu reynst snúnar „en við þurfum bara að skoða það mjög alvarlega hvort að það sé ástæða til að gera það“.
Þórólfur tók fyrir að áform væru uppi um að losa um sóttvarnaaðgerðir á landamærunum sem hluta af kröfu um neikvætt PCR-próf við komu til landsins.
„Nei, það eru ekki áform um það. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það. Hins vegar höfum við sagt að það væri mjög áhugavert að skoða hvort ekki verði hægt, ef við krefjumst PCR-prófs áður en fólk kemur, hvort ekki sé nóg að taka eitt sýni þegar fólk er að koma hingað inn og sleppa þá seinni skimun og sleppa sóttkví. Þetta erum við að skoða og rannsaka núna,“ sagði Þórólfur.
Fram kom í máli Þórólfs að um 10 manns hefðu komið með neikvætt PCR-próf til landsins en greinst með Covid-19 ýmist í fyrri eða seinni skimun.