Hluti nemenda í 9. bekk, sem þreytir í dag samræmt könnunarpróf í íslensku, hefur átt í erfiðleikum með að tengjast rafrænu prófakerfi eða misst ítrekað samband við kerfið.
Í tilkynningu frá Menntamálastofnun segir að sérstök viðbragðsáætlun hafi verið virkjuð til að bregðast við þessum vanda. Skólum býðst þannig að færa próftökuna yfir á aðra daga og nemendur fá þar með tækifæri til að þreyta prófin síðar.
„Menntamálastofnun harmar þau vandamál sem hafa komið upp við fyrirlögn prófanna. Stofnunin er nú í sambandi við þjónustuaðila kerfisins til að rýna í ástæður vandans og leysa hann. Nemendur, foreldrar, skólastjórnendur og fjölmiðlar verða upplýstir um stöðu mála eftir því sem hún skýrist,“ segir í tilkynningunni.