Sýklalyfjanotkun hjá mönnum minnkaði um rúm 9% á milli áranna 2018 og 2019 ef litið er á fjölda ávísana á lyfin og meðal barna yngri en 5 ára minnkaði notkunin ennþá meira eða um tæp 11% á milli ára. Frá árinu 2016 hefur notkun penisillínlyfja dregist saman um 24% í yngsta aldurshópnum, barna sem voru fjögurra ára og yngri.
Þessar upplýsingar koma fram í nýútkominni ársskýrslu sóttvarnalæknis um sýklalyfjanotkun og faraldsfræði ónæmra baktería á Íslandi á árinu 2019.
Þar kemur einnig fram að sýklalyfjanotkun hjá dýrum á Íslandi er áfram ein sú minnsta í allri Evrópu og hélt áfram að minnka eða um 16% á milli áranna 2018 og 2019.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í inngangsorðum skýrslunnar að á undanförnum árum hafi verið rekinn mikill áróður fyrir skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum hér á landi og áhersla lögð á að fækka ávísunum almennt, sérstaklega hjá börnum, og minnka notkun breiðvirkra sýklalyfja. Tilgangurinn sé að minnka kostnað og draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.
„Það er því ánægjulegt að sjá að notkunin hér á landi hjá mönnum hefur minnkað, sérstaklega hjá börnum, og jafnframt að nokkur árangur hefur náðst í að minnka notkunina á breiðvirkum sýklalyfjum,“ segir Þórólfur.
Hann bendir á að notkun sýklalyfja hjá mönnum hefur lengi verið sú mesta á Norðurlöndunum en um miðbik ef miðað er við lönd Evrópusambandsins.