47 mælistöðvar vakta Reykjanesskagann

Hægt er að sjá staðsetningu jarðskjálftamæla og GPS-mæla á Reykjanesskaganum …
Hægt er að sjá staðsetningu jarðskjálftamæla og GPS-mæla á Reykjanesskaganum á kortinu. Samtals eru 47 mælar á skaganum og hafa 11 bæst við á síðustu dögum. Kort/Veðurstofa Íslands

Samtals eru 47 mælistöðvar á Reykjanesskaga sem notaðar eru til að fylgjast með jarðskjálftum og færslu lands. Þessar stöðvar eru meðal þeirra mikilvægu tóla sem Veðurstofan og viðbragðsaðilar hafa til taks til að fylgjast með gangi mála í skjálftahrinunni sem nú gengur yfir Reykjanesskagann og til að meta möguleika á eldgosi.

Ellefu af stöðvunum hafa verið settar upp á síðustu dögum og þrjár til viðbótar voru settar upp í kringum landris við Þorbjörn í fyrra.

Samtals eru 23 GPS-stöðvar á Reykjanesskaganum og til viðbótar ein í Reykjavík. Þar af voru tíu stöðvar sem voru í rekstri fyrir október 2019, en þær eru nokkuð dreifðar um skagann, en þó helst við þekkt jarðskjálfta- og jarðhitasvæði. Eftir að landriss varð vart á síðasta ári var þremur stöðvum bætt við í nágrenni Þorbjarnar og Grindavíkur. Frá því í lok febrúar, þegar núverandi jarðskjálftahrina hófst, hefur tíu nýjum GPS-stöðvum verið bætt við, en með því næst umtalsvert betri dekkun á Reykjanesskagann en áður. Má meðal annars nefna að ein stöð er í nágrenni Keilis, önnur norðvestan við Fagradalsfjall og enn ein sunnan við fjallið.

Starfsmenn jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands koma fyrr í mánuðinum með mælibúnað …
Starfsmenn jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands koma fyrr í mánuðinum með mælibúnað við Keili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarfjöldi jarðskjálftastöðva á Reykjanesskaganum er 20, en einni nýrri hefur verið bætt við síðan í febrúar. Er sú stöð austan við Brennisteinsfjöll. Af stöðvunum 20 eru 12 í rekstri Veðurstofunnar, en átta í rekstri ÍSOR og tékknesku vísindaakademíunnar.

Í síðustu viku var greint frá því að ríkisstjórn Íslands hefði veitt Veðurstofunni 60 milljóna króna aukafjárveitingu. Kristín Jónsdóttir, fagstjóri á sviði náttúruvár hjá Veðurstofunni, segir við mbl.is að þessu fjármagni hafi meðal annars verið varið í að fjölga mælistöðvum á svæðinu.

Staðan á kvikuganginum í dag og helstu jarðskjálftasvæðin hvort sínu …
Staðan á kvikuganginum í dag og helstu jarðskjálftasvæðin hvort sínu megin við kvikuganginn. Kort/Vísindaráð almannavarna
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert