Átta gefa kost á sér í fimm efstu sætin

Samsett mynd af frambjóðendunum átta.
Samsett mynd af frambjóðendunum átta. Ljósmynd/Aðsend

Átta gefa kost á sér í fimm efstu sætin í forvali VG í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

Þau Almar Sigurðsson, ferðaþjónustubóndi og formaður svæðisfélags VG í Árnessýslu, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi og sveitarstjórnarmaður í Skaftárhreppi, Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri og formaður svæðisfélags VG á Suðurnesjum, Kolbeinn Óttarsson Proppé alþingismaður og Róbert Marshall leiðsögumaður bjóða sig fram í fyrsta sæti, að því er kemur fram í tilkynningu.

Að auki bjóða Sigrún Birna Steinarsdóttir, háskólanemi og formaður Ungra Vinstri grænna, sig fram í 2. - 3. sæti, Helga Tryggvadóttir, náms- og starfsráðgjafi, í 2. - 5.  sæti og Anna Jóna Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur í 3. - 5. sæti. 

Kjörstjórn heldur þrjá formlega kynningarfundi með frambjóðendum á Zoom og eru þeir auglýstir á vg.is. Fyrstu tveir fundirnir eru opnir öllum, en sá síðasti er fundur ætlaður félögum í VG sem eru kjósendur í forvalinu.

Fyrsti kynningarfundur verður haldinn 16. mars og annar fundurinn verður 25. mars. Þann 31. mars verða síðustu forvöð að skrá sig í VG til að taka þátt í forvalinu. Síðasti fundur kjörstjórnar með frambjóðendum sem er eingöngu ætlaður félögum í VG verður haldinn 8. apríl.

Forval VG í Suðurkjördæmi hefst klukkan 00.01 á miðnætti 10. apríl og lýkur klukkan 17 þann 12. apríl. Úrslit verða kunngjörð sama dag. Forvalið er rafrænt og hægt er að kjósa með rafrænum skilríkjum eða íslykli á heimasíðu vg.is.

Framboðslisti VG í Suðurkjördæmi verður lagður fram til samþykktar á kjördæmisþingi í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert