„Blaut tuska framan í þolendur kynferðisofbeldis“

Jón Steinar Gunnlaugsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Jón Steinar Gunnlaugsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Ljósmynd/mbl.is/Samsett

Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og þingmaðurinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir eru á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra fyrir að fela Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, að aðstoða ráðuneytið við að vinna að styttingu málsmeðferðartíma í refsivörslukerfinu.

Greint var frá ráðningu Jóns Steinars í Fréttablaðinu.

Fram kemur í ályktun Kvenréttindafélags Íslands og Stígamóta að 13 kvenna- og jafnréttissamtökum hafi verið boðið til fundar í gær þar sem vakin var athygli á kerfisbundnu misrétti gegn konum í réttarkerfinu. Vakin var sérstök athygli of löngum málsmeðferðartíma í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálu.

„Það hefði því átt að vera sérstakt fagnaðarefni að strax daginn eftir að feminíska hreyfingin vekur athygli á óréttlæti réttarkerfisins berast fregnir af því að dómsmálaráðherra sé að vinna í því að stytta málsmeðferðartímann. Við teljum þó að dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sendi konum kaldar kveðjur með því að hafa falið Jóni Steinari Gunnlaugssyni það verkefni að vinna að nauðsynlegum umbótum í réttarkerfinu,“ segir í ályktuninni.

Fram kemur að Jón Steinar hafi haldið því fram í greinarskrifum að dómstólar hafi í stórum stíl látið undan kröfum um að slakað verði á sönnunarfærslu í kynferðisbrota- og barnaníðsmálum og að saklausir menn hafi verið ranglega dæmdir.

„Jón Steinar hefur einnig fullyrt að þolendum kynferðisbrota „myndi líða miklu betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu“,“ segir í ályktuninni. 

„Traust þolenda kynbundins ofbeldis til réttarkerfisins er nú þegar laskað vegna þess hvernig mál þeirra hafa verið meðhöndluð. Að fela Jóni Steinari Gunnlaugssyni það starf að vinna að nauðsynlegum umbótum er alls ekki til þess fallið að auka traust þeirra á kerfinu.“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Köld tuska framan í almenning

Rósa Björk segir á facebook-síðu sinni að dómsmálaráðherra hendi kaldri tusku framan í almenning með því að ráða Jón Steinar sem hafi tekið afstöðu í langflestum tilvikum með gerendum í kynferðisafbrotamálum en ekki þolendum.

„Tuskan er sérstaklega köld daginn eftir að 9 íslenskar konur leggja fram kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar íslenska réttarkerfisins þar sem þær kærðu nauðganir og önnur kynferðisafbrot en málin felld niður,“ skrifar hún.

„Að fá Jón Steinar Gunnlaugsson til að skoða úrbætur í málsmeðferð réttarkerfisins er satt að segja alls ekki til þess fallinn að vekja trú á að það komi raunverulegar úrbætur á málsmeðferðartíma réttarkerfisins í kynferðisafbrotum. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík getur ekki og má ekki hafa áhrif á svo mikilvægan þátt réttarkerfisins.“

Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar, hefur einnig gagnrýnt ráðningu Jóns Steinars og spyr hvort Áslaug Arna sé að grínast.

Sömuleiðis eru Ungir jafnaðarmenn ósáttir við ákvörðun dómsmálaráðherra og tala þeir um að þarna sé á ferðinni „blaut tuska framan í þolendur kynferðisofbeldis á Íslandi“. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert