Draumur um öldrunarmiðstöð verður að veruleika

Frá Hafnarfirði. Þar verður nýja sérhæfða þjónustan til húsa.
Frá Hafnarfirði. Þar verður nýja sérhæfða þjónustan til húsa. mbl.is/Árni Sæberg

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, undirrituðu í dag samning sem felur í sér endurgerð húsnæðis gamla Sólvangs þar sem komið verður á fót nýrri tegund sérhæfðrar þjónustu fyrir aldraða.

„Draumur um öldrunarmiðstöð á Sólvangssvæðinu er að verða að veruleika. Það má segja að með þessu sé endanlega verið að klára þá sýn sem við höfum haft  til margra ára,“ segir Rósa í samtali við mbl.is.

Fara nýjar leiðir

Í húsinu verða rými til skammtíma- og hvíldarinnlagna fyrir 39 einstaklinga þar sem veitt verður létt endurhæfing og lagt mat á frekari stuðningsþarfir viðkomandi. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 250 einstaklingum þessa þjónustu. Markmiðið er að efla getu fólks til að búa lengur heima og draga úr líkum á alvarlegum heilsubresti sem útheimtir þjónustu á bráðamóttöku eða innlögn á sjúkrahús. Einnig verður ný hjúkrunardeild í húsinu með aðstöðu fyrir 11 einstaklinga. Heilbrigðisráðuneytið mun veita Hafnarfjarðarbæ 120 milljónir króna vegna verkefnisins.

„Það er mikið gleðiefni að stíga þetta stóra skref í því að efla öldrunarþjónustu á Sólvangssvæðinu. Við höfum lagt á það mikla áherslu í gegnum árin að þarna verði fyrsta flokks þjónusta og aðstaða fyrir aldraða. Þarna er verið að fara nýjar leiðir, þarna er um nýja nálgun að ræða í stuðningi og þjónustu við eldri borgara sem vilja og geta búið lengur heima,“ segir Rósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert