Drengurinn „ótrúlega hress“

Garðar Ingi er ótrúlega hress að sögn Jónatans Inga, föður …
Garðar Ingi er ótrúlega hress að sögn Jónatans Inga, föður Garðars. Ljósmynd/Aðsend

„Hann er bara ótrúlega hress. Hann er byrjaður að leika sér, sparka í bolta og svona. Það er í rauninni bara með ólíkindum hvernig hann er,“ segir Jónatan Ingi Jónsson, faðir tveggja ára drengs sem varð undir mannlausum bíl í Hafnarfirði í fyrradag. 

„Hann var fastur undir dekkinu með fótinn. Fóturinn slapp ótrúlega vel, hann er ekki einu sinni marinn. Á líkamanum er hann með marblett á öxlinni og á bakinu, svo er náttúrulega andlitið, en allur líkaminn er laus við öll meiðsli,“ segir Jónatan. 

Jónatan Ingi segir meiðsli drengsins aðallega hafa verið á höfði. Hann er með sprungu í höfuðkúpu sem liggur fyrir ofan hægra eyra og undir auga. Það séu meiðsl sem muni gróa og ekki mikið hægt að gera við. Þá er hann með skrámur í andliti og skurð á hnakka og eyra.

„Miðað við hvað hefði getað gerst þá er þetta bara smotterí.“

Garðar Ingi var tvær nætur á gjörgæslu og er á barnaspítala í dag. Jónatan segir Garðar hafa verið með meðvitund allan tímann og grátið þangað til á sjúkrahús var komið, þar sem hann fékk verkjastillingu.

Vill forða börnunum frá því að sjá myndbandið

Fimm ára systir Garðars var með honum í rólunni þegar bíllinn skall á henni. 

Myndskeiði úr öryggismyndavél af atvikinu hefur verið dreift á netmiðlum. Jónatan Ingi biðlar til fólks að dreifa því ekki. 

„Það sem ég hef að segja um myndbandið er að ég vil bara að fólk sé ekki að dreifa því. Dóttir mín er í ákveðnu ferli, það væri mjög slæmt ef hún myndi allt í einu rekast á það á Youtube eða einhvers staðar. Sonur minn tíu ára er líka í áfalli, hann var inni og hann er alveg á netinu.

Ég bara vil ekki að þau sjái þetta. Þó að þau sjái það örugglega einhvern tímann þegar þau eru orðin eldri þá er það þannig. En núna í miðju bataferli þá held ég að það sé best að þau sjái það ekki.“

Ber engan kala til eiganda bílsins

Garðar Ingi hinn hressasti.
Garðar Ingi hinn hressasti. Ljósmynd/Aðsend

„Það gera allir mannleg mistök. Ég hef gert mannleg mistök, þú hefur gert mannleg mistök, þetta er bara slys og þetta slapp ógeðslega vel fyrir alla. Ég vorkenni manninum, hann er í nákvæmlega sömu stöðu og við. Hann er í miklu áfalli og ég vona innilega að hann hafi fengið sömu hjálp og við,“ segir Jónatan um eiganda bílsins sem rann niður götuna mannlaus og endaði í garðinum með áðurgreindum afleiðingum. 

Jónatan Ingi segir fulltrúa Rauða krossins hafa verið komna á vettvang innan hálftíma eftir slysið til að veita fyrstu áfallahjálp. Fjölskyldan hafi fengið góða hjálp á spítalanum og hóptíma hafi verið haldinn í Rauðakrosshúsinu fyrir alla sem urðu vitni að slysinu í gær.

„Þetta er gjörsamlega allt upp á tíu hjá öllum.“

Hvernig tókst ykkur að lyfta bílnum af barninu?

„Bræður mínir, frændi minn, pabbi minn og maður sem kom hlaupandi niður götuna sem sá bílinn renna niður götuna, við vorum þarna fimm eða sex að ýta bílnum upp. Einn til tveir grófu undan drengnum svo við gætum ýtt honum niður. Á meðan ýttu hinir bílnum af honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert