Ekki sýnt fram á mismunun á grundvelli kynferðis

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Mynd úr safni.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ákvörðunin er tekin þannig að upphaflega þegar úrskurðurinn kemur þá leitaði ég til sérfræðinga á sviðinu til að láta meta hann. Fram kom þá að það hafi ekki verið sýnt með fullnægjandi hætti að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis í fyrsta lagi og í öðru lagi að það sé ekki hlutverk kærunefndar að endurmeta sjálfstætt hvern hafi átt að skipa í embættið.“

Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, í samtali við mbl.is um það hvers vegna ákveðið var að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hafnað var kröfu ráðherra um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála yrði ógiltur.

„Þetta er það sama og umboðsmaður Alþingis segir um málið. Þess vegna var þessi ákvörðun tekin,“ bætir Lilja við.

Með úrskurðinum komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls Magnússonar í stöðu ráðuneytisstjóra mennta- og menningamálaráðuneytisins í stað þess að ráða Hafdísi Helgu Ólafsdóttur.

Héraðsdómur staðfesti úrskurðinn og gerði íslenska ríkinu að greiða 4,5 milljónir króna í málskostnað. Þeim dómi var áfrýjað en Lilja hefur verið gagnrýnd fyrir hversu snögglega ákvörðun um áfrýjun var tekin. Hún segir í samtali við mbl.is að sú ákvörðun hafi verið vel ígrunduð.

„Við vorum auðvitað búin að skoða það mjög vel í lok maí og byrjun júní [eftir úrskurð kærunefndar á síðasta ári] og ég hafði þessi álit sérfræðinga. Efnislega hefur ekkert breyst,“ segir Lilja að lokum.

Katrín var ekki búin að sjá dóminn

„Þetta mál er á forræði menntamálaráðherra. Það er hennar að taka ákvörðun bæði að fara í ógildingarmál á sínum tíma og að áfrýja þessum dómi. Það er sama vinnulag og á við um öll slík mál þannig að ég vísa á hana með málsástæður hennar fyrir áfrýjuninni," segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurð að því hvort hún væri sammála ákvörðun menntamálaráðherra um að áfrýja dómnum.

Hún hafði ekki náð að kynna sér dóminn þegar ákvörðun um að áfrýja honum var tekin.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert