Engir annmarkar á málsmeðferð kærunefndar

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hafnað er kröfu mennta- og menningarmálaráðherra um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála yrði ógiltur, kemur fram að ekki hafi verið fyrir hendi neinir annmarkar á málsmeðferð kærunefndarinnar sem geti leitt til ógildingar á úrskurði hennar.

„Kærunefndin byggði úrskurð sinn á ákvæðum laga og málefnalegum sjónarmiðum, beitti lögmætum aðferðum í úrlausn sinni og rökstuddi niðurstöðu sína ítarlega. Þá verður nefndin ekki talin hafa farið út fyrir valdsvið sitt eða verksvið, hvorki við mat á einstökum hæfnisþáttum eða við heildarskoðun á ráðningarferlinu. Verður nefndin því ekki talin hafa gengið of langt við endurskoðun á mati veitingarvaldshafans,“ segir í niðurstöðunni.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Þannig standa engin rök til þess að ógilda úrskurð nefndarinnar. Dómurinn hafnar því kröfu stefnanda, íslenska ríkisins, um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/2020 frá 27. maí 2020 verði felldur úr gildi,“ segir þar einnig.

Íslenska ríkinu var gert að greiða 4,5 milljónir króna í málskostnað. 

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í samtali við mbl.is í morgun að hún hefði ákveðið að áfrýja dómi héraðsdóms eftir að hafa leitað til sérfræðinga á sviðinu.

Ekki hafi verið sýnt með fullnægjandi hætti að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis og að það sé ekki hlutverk kærunefndar að endurmeta sjálfstætt hvern hafi átt að skipa í embættið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert