Prikið tók í dag við strætóskýli sem var flutt frá Njarðargötu í Vatnsmýrinni á skemmtistaðinn í miðbænum til að tryggja ævarandi varðveislu listaverks sem er inni á vegg skýlisins.
Listaverkið er eftir Margeir Dire Sigurðarson, myndlistarmann sem lést ungur að árum árið 2019. Hann skildi eftir sig fjölda samþykktra og ósamþykktra verka á víð og dreif um Reykjavíkurborg, þar sem hans aðalsmerki var hans eigið andlit, sem má einmitt sjá prýða strætóskýlið á myndunum.
Geoffrey Huntingdon-Williams, einn eigenda Priksins, gaf graffinu á skýlinu gaum fyrir um tveimur vikum og vakti svo athygli á þessu á samfélagsmiðlum. Þá kom upp sú hugmynd að varðveita verkið einhvern veginn og niðurstaðan var sú að fara með það heim á Prik.
„Prikið var og er enn þá heimavöllur Margeirs í miðborginni,“ segir Geoffrey í samtali við mbl.is. Hann var sjálfur náinn vinur Margeirs og enn eru í portinu á staðnum önnur verk eftir Margeir.
Sérstakan þátt í þessari sögu á starfsmaður borgarinnar að nafni Hafberg Magnússon. Að sögn Geoffreys fékk Hafberg boð árið 2017 um að fara og mála yfir myndina í skýlinu en þegar hann kom á staðinn tók hann ákvörðun um að leyfa þessu að standa vegna listræns gildis. „Án hans væri þetta því ekki hérna í dag,“ segir Geoffrey.
Hann þakkar Reykjavíkurborg sýndan liðleika og samstarfsvilja og segir að Prikið muni leggja sitt af mörkum til að varðveita verkið, með plexígleri yfir myndina til dæmis, svo að óvitar fari ekki að krota á þetta að næturlagi.
Skýlið virðist vera í öruggum höndum í portinu, sem Geoffrey bendir á að hafi verið óformlegur sýningarsalur íslenskrar götulistar í hartnær áratug.