„Það eru auðvitað framleiðendur sem eru ekki inni í Evrópusambandssamningunum. Heilbrigðisráðuneytið er að skoða þá framleiðendur líka,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is spurð um hvaða bóluefni íslensk yfirvöld eru með til skoðunar önnur en þau sem aflað hefur verið á grundvelli Evrópusamstarfsins.
„Þótt við séum bundin af Evrópusambandssamningunum og munum halda áfram því samstarfi sem við erum í við aðrar Evrópuþjóðir getum við að sjálfsögðu leitað til framleiðenda sem standa utan við þá samninga,“ bætti hún við án þess að nefna sérstaklega hvaða framleiðendur um væri að ræða.
Katrín sagði jafnframt að þessi mál væru stöðugt til skoðunar og undir það tók Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. „Við erum náttúrlega með alla anga úti,“ sagði Svandís í samtali við mbl.is.
Austurríki og Danmörk eru nú komin í einhvers konar samstarf við Ísrael um bóluefni en Katrín segir ekki hafa verið rætt um að ganga inn í það bandalag.
„Það varðar í raun og veru, eins og ég skil fregnir, þróun annars fasa bóluefnis við stökkbreyttum afbrigðum. Þannig að það samstarf snýst ekki um að flýta afhendingu núna heldur um að þróa næsta fasa í bóluefni. Eins og ég skil þetta þá hafa Danir og Ísraelar verið í sérstöku rannsóknarsamstarfi sem við erum ekki aðilar að og þetta byggist á þeim grunni,“ bætti hún við en setti þann fyrirvara að hennar skilningur á samstarfinu væri byggður á umfjöllun danskra fjölmiðla.