Hafi sent ráðuneytinu 12 minnisblöð

Hundruð nemenda í 9. bekk grunnskóla náðu ekki að ljúka …
Hundruð nemenda í 9. bekk grunnskóla náðu ekki að ljúka samræmdu prófi í íslensku í gær vegna tæknilegra örðugleika og hefur prófum í stærðfræði og ensku verið frestað. mbl.is/Hari

Menntamálastofnun hefur sent menntamálaráðuneytinu 12 minnisblöð vegna framkvæmdar samræmdra prófa frá 2018. Þetta segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, í samtali við mbl.is.

Hundruð nemenda í 9. bekk grunnskóla náðu ekki að ljúka samræmdu prófi í íslensku í gær vegna tæknilegra örðugleika og hefur prófum í stærðfræði og ensku verið frestað.

„Við vildum ekki fara aftur af stað með próftöku fyrr en við værum fullviss um að þjónustuaðili prófkerfisins væri búinn að koma í veg fyrir þessi tæknilegu vandamál sem komu upp í gær. Nógu mikið er álagið á nemendur,“ segir Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri matssviðs Menntamálastofnunar. Þá segir hann að fjármagn til Menntamálastofnunar hafi verið skorið niður fyrir árin 2020 og 2021 á sama tíma og mikil þörf sé að byggja upp stafræna innviði.

Prófin verði stöðvuð meðan lausn sé fundin

Arnór segir stofnunina ítrekað hafa kallað eftir auknu fjármagni til kaupa á nýju prófkerfi og segir 12 minnisblöð varðandi framkvæmd samræmdra prófa hafa verið send ráðuneytinu frá 2018 þegar tæknilegir örðugleikar komu upp við próftöku.

„Við höfum bent á að þetta kerfi sé ekki fullnægjandi og jafnvel lagt til að prófin verði stöðvuð tímabundið á meðan sé verið að finna ásættanlega lausn. Við höfum hingað til ekki fengið nein viðbrögð við því og erum því að keyra prófin áfram á þessu úrelta kerfi.“

Arnór vonast til þess að í kjölfar atviksins í gær verði málið tekið alvarlega. Stofnunin hafi sýnt mikla ábyrgð í málinu og hafi hagsmuni nemenda alltaf í forgrunni. „Við teljum að við höfum gert allt sem við getum okkar megin.“

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar.
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert