Innanlandssmitin tengjast öðru smiti helgarinnar

„Vonandi tekst að stoppa þetta þarna en maður hefur ákveðnar …
„Vonandi tekst að stoppa þetta þarna en maður hefur ákveðnar áhyggjur því þetta virðist vera bráðsmitandi,“ segir Þórólfur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innanlandssmitin tvö sem greindust utan sóttkvíar í gær tengjast öðru innanlandssmitinu sem greindist um helgina. Báðir einstaklingarnir sem greindust smitaðir í gær fóru í einkennasýnatöku. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Spurður hvers vegna fólkið hafi ekki verið sent í sóttkví þar sem það tengist öðrum smitaða einstaklingnum segir Þórólfur:

„Það var einhverra hluta vegna ekki gefið upp í rakningunni. Við erum alltaf ofurseld þeim upplýsingum sem við fáum frá fólki. Það kom ekki fram þar, sem sýnir hvað það þarf lítið til og getur verið viðkvæmt ástand.“

Kalla tónleikagesti aftur í skimun

Annar þeirra sem greindust smitaðir um helgina er starfsmaður á Landspítala. Hann fór á 800 manna tónleika í Hörpu á föstudagskvöld. 1.500 manns voru skimaðir í gær, en stór hluti þess hóps hafði sótt tónleika í Hörpu. Engin smit greindust í þeim hópi. Þar sem meðgöngutími veirunnar er nokkrir dagar segir Þórólfur að tónleikagestirnir verði boðaðir aftur í skimun. 

„Við viljum kalla fólkið sem var í Hörpu í skimun aftur á fimmtudaginn. Við erum að undirbúa að það fái boð um það. Við erum líka að biðla til einstaklinga í Hörpu og á Landspítala sem hafa verið útsettir til að fara mjög varlega og passa sig mjög vel. Ef fólk fer að finna fyrir einhverjum einkennum að halda sig strax til hlés.“

Virðist vera bráðsmitandi

Nú greindust bæði smitin í gær utan sóttkvíar, það hlýtur að valda áhyggjum? 

„Það er ákveðið áhyggjuefni en það hefði verið verra ef þessi tilfelli hefðu engin tengsl neitt og enginn hefði vitað neitt, þá hefðum við verið í verri málum. Við erum að reyna að leggja eins mikið í þetta og mögulegt er til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu, með sýnatöku, rakningu og öðru slíku. Vonandi tekst að stoppa þetta þarna en maður hefur ákveðnar áhyggjur því þetta virðist vera bráðsmitandi,“ segir Þórólfur.

Bæði innanlandssmitin sem greindust um helgina, sem og eitt smit að utan sem tengist innanlandssmitunum, eru af hinu breska afbrigði veirunnar sem virðist vera bráðsmitandi. Enn er ekki ljóst hvort smitin sem greindust í gær séu af breska afbrigðinu. Raðgreiningar er beðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert