„Það er verið að beita úrræði í sakamálalögum. Við beitum því af því að við teljum ástæðu til, sem sagt að hann geti verið vitni í málinu. Verjandi má ekki vera vitni í máli sem er til rannsóknar hjá lögreglu,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Greint var frá því í dag að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gert kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að einn verjenda í morðmálinu í Rauðagerði verði kallaður til skýrslutöku sem vitni í málinu. Verði fallist á kröfuna getur hann ekki gegnt starfi verjanda áfram.
Verjandinn, Steinbergur Finnbogason, fjallaði um málið í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag, undir fyrirsögninni Ljótur leikur lögreglunnar þar sem hann fer yfir fyrri viðskipti sín við lögregluna og segir hana vega alvarlega að réttindum og andlegri líðan his grunaða.
„Þetta er bara samkvæmt lögum, ef verjandi er vitni í máli sem er til rannsóknar, þá má hann ekki vera verjandi, það er ekkert meira um það að segja,“ segir Margeir Sveinsson um úrræðið sem gripið hefur verið til af hálfu lögreglunnar. Hann bætir því við, að að sjálfsögðu verði hinum grunaða útvegaður nýr verjandi, óski hann eftir því.
Þið takið því alvarlega að beita þessu úrræði?
„Það er ekki mikið verið að beita þessu úrræði svo sem. Enda hefur það ekki komið upp, ja ég man kannski eftir einu tilviki sem hefur komið upp á mínum ferli.“
Margeir segist gefa lítið fyrir gagnrýni Steinbergs í Fréttablaðinu í dag. „Ég gef bara lítið fyrir það. Víð færum rök fyrir af hverju þetta er lagt fram og dómur tekur á því og tekur afstöðu til þess. Við skulum spyrja að leikslokum,“ segir Margeir.
„Steinbergur má segja lögregluna vera að leika sér en við erum bara að fara eftir lögum.“
Margeir segist ekki vita hversu langan tíma slík afgreiðsla muni taka. „Mér finnst bara eðlilegt að dómari gefi sér tíma og skoði gaumgæfilega þegar svona beiðni er lögð fram. Ef þeir gefa sér lengri tíma og fá réttar niðurstöður þá er ég ánægður.“
Farið verður fram á framlengingu gæsluvarðhalds eins þeirra er sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna morðsins í Rauðagerði. Gildandi gæsluvarðahald hans rennur út á morgun. Þrír aðrir sitja í gæsluvarhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til 17. mars.
Þá hefur farbann yfir þremur einstaklingum verið framlengt um fjórar vikur sem renna átti út í dag. Fimm eru alls í farbanni vegna málsins.