Fyrirtækið Expectus hefur hannað og birt á vef sínum einstaklega skilmerkilegt kort, þar sem jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga eru gerð skil. Þar fer tölfræði saman við gervihnattarmyndir af svæðinu með gagnvirku viðmóti.
Þar má meðal annars sjá lista yfir skjálftana í stærðarröð, smella á hvern skjálfta og sjá þá nákvæmlega hvar hann átti sér stað á skaganum. Þar verður skýrt á hve mörgum mismunandi stöðum stærstu skjálftarnir hafa komið upp.
Einnig kemur fram að aðeins þrír af tíu stærstu jarðskjálftunum sem orðið hafa í þessari hrinu urðu í mars.
Að sögn Steins Arnars Kjartanssonar, ráðgjafa hjá Expectus, réðust starfsmenn fyrirtækisins í gerð kortsins til að fá betri yfirsýn yfir skjálftavirknina. Kortið er unnið á grundvelli jarðskjálftagagna frá Veðurstofunni með viðskiptagreindartólinu Tableau, sem Expectus er þjónustuaðili fyrir á Íslandi.
Expectus fæst að öðru leyti almennt ekki við úrvinnslu á jarðhræringum, heldur er það í grunninn ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtæki sem aðstoðar fyrirtæki að taka gagnadrifnar ákvarðanir.
Best er að fara á síðu Expectus til að skoða kortið.