Þrjú jákvæð sýni greinst hjá veirufræðideild í dag

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Þrjú jákvæð sýni hafa greinst á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í dag.

Þetta segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á deildinni, í samtali við mbl.is. Þar af eru tvö sýnin lág-jákvæð og er þar mögulega um að ræða gömul smit á landamærunum. Ekki er vitað hvort hitt smitið er nýtt eða gamalt, en áður var rætt við Karl í kvöldfréttum RÚV

Smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis fer í framhaldinu yfir það hvers eðlis smitin eru.

Alls hafa 1.000 sýni verið tekin inn í nýtt veirutæki deildarinnar í dag og komin eru um 660 svör. Síðustu sýnin verða komin um ellefuleytið í kvöld. Þau koma úr flugvél frá Egilsstöðum og úr annarri flugvél frá landamærunum.

Karl segir að byrjað hafi verið að prufukeyra tækið í tvær til þrjár vikur áður en starfsemi deildarinnar var flutt úr Vatnsmýrinni í Ármúla þann 22. febrúar og tækið tekið í fulla notkun. „Það hefur reynst mjög vel til þessa og uppfyllt okkar væntingar,“ segir hann.

Tækið getur tekið tæplega 4.000 sýni á sólarhring. Ef miðað er við að hlaðið er inn í tækið frá 8 að morgni til 20 eða 21 að kvöldi tekur það um 2.000 sýni á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert