Tvö smit innanlands – ekki í sóttkví

Skimun vegna Covid-19 fer fram á Suðurlandsbraut.
Skimun vegna Covid-19 fer fram á Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls greindust tvö kórónuveirusmit innanlands í gær en mikill fjöldi var skimaður vegna nýrra smita innanlands á laugardag. Báðir voru utan sóttkvíar. Eitt smit greindist við fyrri sýnatöku á landamærunum í gær. Daginn áður greindust tveir en við mótefnamælingu kom í ljós að þeir voru með mótefni og því ekki smitandi. 

Nú eru 16 í einangrun með Covid-19 á Íslandi og 107 í sóttkví. Í skimunarsóttkví eru 886 en voru 794 í gær. Sami fjöldi er í sóttkví og í gær en það hefur fjölgað um tvo í einangrun. 

Nýgengi smita innanlands á hverja 100 þúsund íbúa er nú 1,6 síðustu tvær vikur og 3 á landamærunum. 

Alls var 1.581 einstaklingur skimaður innanlands í gær og 353 á landamærunum. Á höfuðborgarsvæðinu eru 13 í einangrun og 97 í sóttkví. Á Suðurnesjum er einn með Covid og einn í sóttkví. Á Suðurlandi eru tvö smit og sex í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru tveir í sóttkví en einn á Vestfjörðum og einn á Vesturlandi. 

Eitt smit er í aldurshópnum 13-17 ára og fimm hjá 18-29 ára. Sjö eru með Covid-19 í aldurshópnum 30-39 ára og einn í aldurshópnum 40-49 ára. Eins er einn á sextugsaldri með Covid og einn á sjötugsaldri. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert