Verður fróðlegt að fylgjast með málinu

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. mbl.is/Hanna

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir að það verði fróðlegt að fylgjast með því hvernig fer með kærur níu kvenna til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) á hendur íslenska ríkinu.

Hún segist hafa heyrt af því fyrir nokkru að þetta stæði til og kom það henni því ekki á óvart þegar kærurnar voru lagðar fram.

Konurnar höfðu allar áður kært kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða kynbundna áreitni til lögreglu en mál þeirra voru felld niður eftir rannsókn lögreglu og var sú ákvörðun staðfest af ríkissaksóknara. 70 til 85% mála af þessum toga eru felld niður áður en þau komast inn í dómsal.

Héraðssaksóknari.
Héraðssaksóknari. mbl.is/Hjörtur

Stundum sögð of ákæruglöð

Í samtali við mbl.is gagnrýndi talskona Stígamóta ákæruvaldið og sagði það hafa tekið sér dómaravald í málunum níu því þau hefðu ekki fengið áheyrn dómara í dómsal. Kolbrún segir ákveðnar reglur í sakamálalögunum gera ráð fyrir því að þau leggi mat á sönnunarstöðuna í málum. Ákæra er lögð fram með hliðsjón af sönnunarkröfunni sem dómstólar gera. Síðan geta menn haft mismunandi skoðanir á því hversu langt eigi að ganga. 

„Við fáum líka að heyra það að stundum séum við of ákæruglöð og við séum að ákæra í of mörgum málum. En ákærandi þarf að byggja matið á málavöxtum í hverju máli fyrir sig og það kemur bara í ljós hvað Mannréttindadómstóllinn segir við þessu,“ segir Kolbrún, sem veit ekki hver þessi níu mál eru sem hafa verið kærð til MDE.

Lögreglustöðin við Hlemm.
Lögreglustöðin við Hlemm. mbl.is/Golli

Ýmsar aðgerðir til að stytta tímann

Málsmeðferðartíminn hefur einnig verið gagnrýndur og segir Kolbrún að bæði lögreglan og ákæruvaldið hafi síðustu ár gripið til ýmissa aðgerða til að stytta hann, meðal annars þegar kemur að kynferðisbrotamálum. Nýtt verklag hefur verið í gangi hjá lögreglu með aukinni teymisvinnu og hjá héraðssaksóknara hefur straumlínustjórnun verið innleidd.

„Auðvitað gerir maður sér grein fyrir því að það er ekki gott fyrir neinn, hvorki sakborninga né brotaþola, að málin dragist á langinn,“ greinir hún frá. „Við viljum auðvitað að málin taki sem stystan tíma en sumt tekur sinn tíma. Það þarf að senda sýni til útlanda sem tekur tíma að fá til baka og hitt og þetta. Auðvitað má samt alltaf gera betur,“ bætir hún við.

Varðandi gagnrýni vegna mála þar sem sakborningar og vitni voru kölluð inn með margra mánaða millibili og því vel hægt að samræma framburð segir Kolbrún að ef menn ætla sér að samræma framburð sinn ráði tíminn sem líður á milli skýrslutöku ekki endilega úrslitum. Menn geti gert það hvort sem langur eða stuttur tími líður á milli. Erfitt sé að eiga við það.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ekki hægt að láta reyna á öll mál

Hún segir sönnunarkröfu dómstóla vera breytilega og nefnir að niðurstöður dómstóla í málaflokki kynferðisbrota séu það einnig. „Það er ekki þannig að það sé sakfellt í hverju einasta máli sem við látum reyna á. Þetta er alltaf erfitt mat,“ segir Kolbrún og ítrekar að lögum samkvæmt sé ekki hægt að láta reyna á öll mál.

„Við erum bundin af þessum ákvæðum í sakamálalögunum sem segja að ákærandinn á ekki að ákæra nema hann telji að það sem fram hefur komið sé nægilegt eða líklegt til sakfellis. Við verðum að byggja á þeirri reynslu og þekkingu sem við höfum og þeirri kröfu sem dómstólar gera.“

Varðandi málaflokk kynferðisbrota segir hún sönnunargögnin oft á tíðum munnlega framburði og því séu þessi mörk stundum lægri þar en í öðrum málaflokkum.

Kolbrún beindir einnig á að árið 2016 hafi verið gerð mikil réttarbót í þessum málaflokki þegar hægt var að skjóta ákvörðun um að fella niður kynferðisbrotamál til ríkissaksóknara. „Það var mikil réttarbót hvað viðkemur kynferðisbrotum,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert