Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gert kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að einn verjenda í morðmálinu í Rauðagerði verði kallaður til skýrslutöku sem vitni í málinu. Verði fallist á kröfuna getur hann ekki gegnt starfi verjanda áfram. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Um er að ræða lögmanninn Steinberg Finnbogason sem er skipaður verjandi Íslendings sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins en sætir nú farbanni.
Steinbergur fjallar um málið í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag, undir fyrirsögninni Ljótur leikur lögreglunnar.
Í greininni rifjar Steinbergur upp fyrri viðskipti sín við lögregluna af svipuðum toga en hann var handtekinn árið 2016 við komu í skýrslutöku með skjólstæðingi sínum sem var grunaður um aðild að umfangsmiklu peningaþvætti. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald og látinn sæta húsleit á heimili sínu og lögmannsstofu þar sem mikið magn skjala var afritað og haldlagt. Ríkið var í fyrra dæmt til að greiða Steinbergi bætur vegna fyrrgreindra aðgerða.