Afgreiðslan ekki í samræmi við lög

Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afgreiðsla Ábyrgðasjóðs launa á launkröfum starfsmanna í þrotabú starfsmannaleigunnar Menn í vinnu virðist ekki hafa verið í samræmi við lög. Vinnumálastofnun mun taka málsmeðferð sjóðsins til endurskoðunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.

Fyrr í dag sendi Efling frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að Ábyrgðarsjóður launa hefði fall­ist á að gang­ast í ábyrgð fyr­ir van­greidd­ar launa­greiðslur til fjög­urra fé­lags­manna Efl­ing­ar stétt­ar­fé­lags sem störfuðu hjá fyr­ir­tæk­inu Eld­um rétt.

Í tilkynningu Vinnumálastofnunar segir að kröfurnar hafi verið afgreiddar í samræmi við samþykki skiptastjóra þrotabúsins sem lá fyrir síðastliðið haust.

„Í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms 24. febrúar sl.var tilefni til endurskoðunar á afgreiðslu umrædds þrotabús. Það var yfirsjón að afgreiða þessar kröfur án tillits til umrædds dóms,“ segir í tilkynningunni.

„Vinnumálastofnun tekur fram að engin afstaða er tekin af hálfu stofnunarinnar til þeirra málaferla sem Efling á í við þrotabú Menn í vinnu og fyrirtækið Eldum rétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert